Anítu boðið að keppa á Bislett leikunum

15.03.2017 - 09:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aníta Hinriksdóttir mun keppa á Demantamótinu í Osló þann 15. júní. Um er að ræða hina frægu Bislett leika sem eru hluti af Demantamótaröðinni, en Bislett leikarnir hafa verið haldnir árlega frá árinu 1965. Mótið er einn þekktasti frjálsíþróttaviðburður sem haldinn er árlega.

Jasper Buitink umboðsmaður Anítu segir í samtali við RÚV að verið sé að vinna mótadagskrá hennar fyrir utanhússtímabilið. Ljóst sé að hennar fyrsta utanhúss mót í 800 m hlaupi í ár verði á Payton Jordan boðsmótinu í Californiu-ríki Bandaríkjanna 5. maí. Nú sé Demantamótið á Bislett leikanginum í Osló svo staðfest til viðbótar í mótadagskrá hennar.

Bronsið á EM getur opnað dyr

Ljóst er að árangur Anítu á Evrópumótinu innanhúss í Belgrad í Serbíu fyrr í þessum mánuði, þar sem hún vann til bronsverðlauna í 800 metra hlaupi, opnar fleiri dyr fyrir hana á sterk mót. Samkeppnin er þó mikil í 800 metra hlaupi kvenna í heiminum eins og sást vel á Ólympíuleikunum í Ríó de Janeiro í Brasilíu síðasta sumar. Þar komst Aníta ekki áfram úr undanrásum í undanúrslit þrátt fyrir að bæta eigið Íslandsmet í undanrásunum og eiga betri tíma en nokkrir keppendur sem komust í undanúrslitin.

Stóra mótið hjá Anítu í sumar verður svo væntanlega heimsmeistaramótið á Ólympíuleikvanginum í London í ágúst. Hún þarf að hlaupa undir 2:01,00 mín. til að fá keppnisrétt á HM en miðað við tíma hennar á innanhússtímabilinu ætti hún að fara létt með að ná lágmarkinu tímanlega.

Mynd með færslu
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson
íþróttafréttamaður