Aníta komst ekki í undanúrslitin

10.08.2017 - 19:14
Aníta Hinriksdóttir er úr leik á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum í London. Aníta rétt missti af sæti í undanúrslitum HM í 800 m hlaupi í kvöld. Aníta kom fjórða í mark í sínum riðli á 2:03,45 mín.

Þrír fyrstu í hverjum riðli komust í undanúrslit, en svo sex hröðustu hlaupararnir þar fyrir utan. Tími Anítu dugði henni ekki til þess að komast áfram.

Aníta hljóp þó nokkuð vel í kvöld, en lokaðist inni í þvögunni á seinni hringnum. Hún náði ekki að losa sig út úr hópnum og endaði á því að koma fjórða í mark og er úr leik á HM.

Hlaup Anítu í undanrásunum má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Mynd með færslu
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson
íþróttafréttamaður