Andlit lafðinnar af Cao endurskapað

05.07.2017 - 06:24
epa06066360 The face of the mummy of the Lady of Cao, a woman who ruled the Chicama Valley 1700 years ago, on the Peruvian north coast is revealed at a ceremony held at the Museo de la Nacion in Lima, Peru, 04 July 2017. At the ceremony was also presented
 Mynd: EPA  -  EFE
Vísindamönnum i Perú tókst að endurskapa andlit áhrifamikillar konu sem lést fyrir um 1.700 árum. Konan, sem jafnan er nefnd lafðin af Cao, tilheyrði Moche ættflokknum í norðurhluta Perú og fannst hún í uppgreftri árið 2006.

Með rannsókn á beinabyggingu höfuðkúpu hennar tókst vísindamönnunum að prenta út þrívíddarlíkan af andliti hennar. Það fær nú að njóta sín nærri líkamsleifum hennar á safni í Perú. Á greftrunarstað lafðinnar mátti finna kórónu og hluti úr gulli og kopar, auk fjölda vopna. Áður en lík hennar fannst var talið að einungis karlmenn hefðu verið í valdastöðum í Moche ættflokknum. Talið er að hún hafi verið trúar- eða stjórnmálaleiðtogi. Samkvæmt rannsókn á líkamsleifum hennar var hún á þrítugsaldri þegar hún lést. 

Salvador del Solar, menningarmálaráðherra Perú, sagði andlitið samræmast andlitsdráttum margra landa sinna. Hann kvaðst stoltur af því að fá að afhjúpa þessa furðulegu blöndu framtíðar og fortíðar, þar sem tæknin sé notuð til þess að sýna okkur andlit leiðtoga fortíðarinnar.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV