Ánægður með fyrsta mánuð ferjusiglinga

28.07.2017 - 21:06
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Siglingar ferjunnar Akraness milli Reykjavíkur og Akraness hafa gengið prýðilega fyrsta rúma mánuðinn sem þær eru reyndar. Þetta segir Gunnlaugur Grettisson, forstöðumaður ferjudeildar Eimskips sem rekur ferjuna.

Fyrsta heila mánuðinn nýttu um 1.500 farþegar sér þá þjónustu sem var í boði. Gunnlaugur segir að þetta sé góð byrjun. Það taki tíma að vinna upp farþegafjöldann. Þar horfi menn til reynslunnar af strætisvagnaþjónustu milli Reykjavíkur og Akraness. Farþegar hafi verið fáir í fyrstu en fjölgað þegar meiri reynsla fékkst á þjónustuna og fleiri fréttu af henni. „Við finnum að það er munur á traffíkinni þegar er sól og gott veður og þegar það er rok og rigning,“ segir Gunnlaugur. 

Ferjusiglingarnar milli Reykjavíkur og Akraness standa yfir fram á haust, og eru hugsaðar sem tilraunaverkefni. „Auðvitað vildi ég vera með fleiri farþega,“ segir Gunnlaugur. Framhald siglinga ræðst af því hversu vel þjónustan er nýtt og því ráð fyrir þá sem vilja halda siglingunum áfram að ferðast með Akranesi, segir hann.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV