Alvarlegur skortur á fasteignum til sölu

11.01.2017 - 18:28
Mynd með færslu
Heimavellir byrja á næstunni að leigja út íbúðir í Bryggjuhverfi
Aðeins um 1.000 fasteignir eru til sölu á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt upplýsingum frá Íbúðalánasjóði. Framkvæmdastjóri fjárstýringar sjóðsins segir að ef allt væri eðlilegt væru tæplega 4.000 eignir til sölu á svæðinu. Hann segir að alvarlegur skortur sé á fasteignum til sölu.

Íbúðalánasjóður kynnti í morgun úthlutun sína á ríflega tveggja milljarða króna stofnframlögum til byggingar 385 íbúða, svokallaðra leiguheimila, um allt land. Leiguheimilin verða byggð á hagkvæman hátt og leigð út á 20 til 30% lægra verði en íbúðir á almenna leigumarkaðinum, samkvæmt upplýsingum frá sjóðnum. Þetta er fyrsta úthlutunin frá gildistöku laga um almennar íbúðir. Á fundinum í morgun fór Sigurður Jón Björnsson, framkvæmdastjóri fjárstýringar Íbúðalánasjóðs, yfir stöðuna á húsnæðismarkaði.

„Ástandið er farið að sýna merki þess að það séu ákveðnar hættur í gangi. Það er alvarlegur skortur á framboði fasteigna til sölu, hvort sem við lítum til notaðra eigna eða nýrra,“ segir Sigurður og bætir því við að aðeins um eitt þúsund íbúðir séu til sölu á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir að ef allt væri eðlilegt væru þær tæplega 4.000.

„Eðlilegar eignir, og ég tala nú ekki um góðar eignir, seljast jafnvel á sýningunni. Og jafnvel á verði sem er yfir því sem sett var á þær fyrir mjög skömmu síðan. Þannig að þetta er greinilega eitthvað til að hafa áhyggjur af.“

Sigurður segir að byggja verði fleiri litlar og meðalstórar íbúðir til að bæta ástandið.

„Þau verkefni sem eru í gangi í dag eru óþægilega mörg á þéttingasvæðum þar sem lóðir eru dýrar. Þannig að það er ekki hægt að búast við því að mikið af því sem er í byggingu sé ódýrt og muni fylla upp í þessa brýnustu þörf,“ segir Sigurður.