... allt sem ég gerði, gerði ég úti í bláin,

12.06.2017 - 12:13
segir Benedikt Gröndal í upphafi sjálfsævisögu sinnar Dægradvöl sem að þessu sinni er bók vikunnar. Þátturinn var áður á dagskrá  í janúar árið 2016 en segja má að sé við hæfi að rifja upp ævi Benedikts eins og honum segist frá henni sjálfum þegar óðum styttist í að húsið þar sem Benedikt bjó síðustu árin, Gröndalshús, verði opnað sem rithöfundahús á vegum Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO. Húsið stendur nú við Vesturgötu 5b en var áður við Vesturgötu 16b.

Gestir Eiríks Guðmundssonar í þættinum nú á sunnudaginn 18/6 eru þau Guðrún Nordal forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Pétur Gunnarsson rithöfundur.

Hér má heyra Svein Ólaf Gunnarsson leikara lesa upphaf bókarinnar sem kom fyrst út árið 1923 og hefur verið gefin út ótal sinnin síðan, síðast sem kilja hjá Forlaginu árið 2014. Sveinn Ólafur les einnig annað brot þar sem Benedikt hugleiðir m.a. leið sína til skáldskaöarins. Á milli lestranna má svo hlusta á vital Jórunnar Sigurðardóttur við Guðmund Andra Thorsson en skáldsaga hans Sæmd frá árinu 2013 fjallar einmitt um Benedikt Gröndala og samskipti hans við Björn M. Olsen.

Bendikt Gröndal fæddist á Áftanesi árið 1826 og var annar tíu barna Sveinbjörns Egilssonar rektors Lærða skólans og Helgu Gröndal konu hans. Dægradvöl er sjálfsævisaga Benedikt sem kom fyrst út tæpum 20 árum eftir andlát hans eða árið 1923 en Benedikt  mun að mestu hafa skrifað bókina um miðjan síðasta áratug nítjándu aldar.

Benedikt gekk í Bessastaðaskóla og sigldi síðan til háskólanáms við Kaupmannahafnarháskóla. Í Kaupmannahöfn nam Benedikt hvort tveggja náttúrufræði og bókmenntir auk þess sem hann var bæði skáld og afbragðs teiknari og málari. Benedikt ferðaðist víða um Evrópu áður en hann sneri endanlega heim og hafði þá lokið meistaragráðu í norrænum fræðum.

Hann kvæntist seint Ingigerði Tómasdóttur Zoega sem var talsvert yngri en hann. Þau eignuðust þrjár dætur en misstu þær allar, Ingigerður lést árið 1881 og var manni sínum mikill harmdauði.

Benedikt orti fjölda kvæða einkum tækifæriskvæða fyrir annað fólk, hann skrifaði sjálfsævisöguna Dægradvöl og háðsádeiluna Sagan af heljarslóðrorustu auk þess sem ritsafn hans inniheldur fyrirlestra og greinar af margvíslegum toga sem og kvæði eftir hann. Það var Gils Guðmundsson sem annaðist útgáfu ritsafns Benedikts sem kom út hjá Ísafoldarprentsmiðju á árunum 1948 – 1954. 

Benedikt Gröndal lést árið 1907 í Reykjavík og hafði síðustu árin búið í litlu bakhúsi við Vesturgötu 16b. Varðveisla þessa hús hefur á síðustu árum orðið að tákngerfingi þeirrar verðskulduðu virðingar sem Benedikt Gröndal aldrei naut. Húsið hefur nú verið gert upp og komið fyrir svolítið neðar á Vesturgötunni en það upprunalega stóð eða við Vesturgötu 5b og verður formlega vígt sem rithöfundarhús Reykjavíkur bókmenntaborgar í þessum mánuði.

 

 

 

Mynd með færslu
Jórunn Sigurðardóttir
dagskrárgerðarmaður
Bók vikunnar
Þessi þáttur er í hlaðvarpi