Allt að tólffalt flúor í beinum lamba

13.06.2017 - 21:35
Flúor frá álveri Alcoa Fjarðaáls safnast upp í beinum grasbíta sem ganga í Reyðarfirði og þar sem það mælist mest í lömbum er það að meðaltali næstum tólffalt á við það sem eðlilegt getur talist. Ekki hafa þó fundist merki um að flúorið hafi skaðað sauðfé.

Þetta kemur fram í nýrri umhverfisvöktunarskýrslu fyrir árið 2016. Álver Fjarðaáls hefur starfað í Reyðarfirði í tíu ár en sumarið 2012 fór flúor yfir viðmiðunarmörk fyrir grasbíta í firðinum. Álverið bætti mengunarvarnir og síðan hefur flúor í grasi verið undir mörkum.

Skemmdir á glerungi tanna fyrstu merki um skaðleg áhrif 

Samkvæmt upplýsingum frá álverinu er losun flúors þar með því lægsta sem þekkist í álverum og var í fyrra 0,25 kg á hvert framleitt áltonn. Þrátt fyrir það safnast efnið upp á milli ára í beinum grasbíta. Mælingar á sláturfé í fyrra sýndu að í kjálkabeinum lamba frá bænum Sléttu var flúorið rúmlega ellefufalt. Á bænum Víkingsstöðum var styrkurinn í kjálkabeinum lamba nánast tólffaldur á við viðmiðunarbæi. Það lamb sem mældist með mestan styrk var frá bænum Sléttu og hafði rúmlega fimmtánfaldan styrk flúors í kjálka. Bóndinn á Sléttu hefur ekki áhyggjur enda sé vel fylgst með fénu. „Elstu ærnar sem við höfum lógað, það hefur mælst í þeim alveg við þessi viðmiðunarmörk eða hættumörk sem skilgreind hafa verið. Og það hafa verið tekin sýni úr beinum og lærlegg og upp í mjaðmarlið og það hefur ekki komið neitt sem bendir til þess að það hafi skaðað þær,“ segir Sigurður Baldursson, bóndi á Sléttu. Fram kemur í skýrslunni að ekki hafi sést breytingar á glerungi tanna sem eru fyrstu merki um að flúor sé farið að spilla heilsu dýra.

Viðmið fyrir norsk dádýr látin gilda um íslenskar kindur

Viðmiðunarmörk fyrir hesta eru hærri en þau mörk sem gilda um sauðfé en Sigurður bendir á að mörk fyrir sauðfé hafi í raun aldrei verið skilgreind sérstaklega. „Þessi hættumörk sem skilgreind hafa verið eru varðandi norsk dádýr en ekki íslenskt sauðfé. Og til þess þyrfti væntanlega að gera rannsóknir til að finna út úr því hvar hin raunverulegu hættumörk væru.“

Þrjár ær jafngamlar álverinu

Sigurður segir að mestur flúor hafi mælst í þeim kindum sem gangi í fjarðarbotninum enda beri ríkjandi vindátt flúorið þangað. Kindurnar verði átta til tíu ára gamlar og hann eigi þrjár ær sem fæddust árið 2007 og séu því jafngamlar álverinu. Þær fari í sláturhús þegar þær komi af fjalli í haust og forvitnilegt verði að fá niðurstöður úr flúormælingu á kjálkum þeirra. Rétt er að taka fram að flúor safnast ekki í bandvef og spillir því ekki kjöti.

Greinilegar gróðurskemmdir bundar við þynningarsvæði 

Umhverfisvöktun nær líka til gróðurskemmda. Ekki fundust greinileg merki um flúorskemmdir á gróðri í Reyðarfirði nema næst álverinu innan þynningarsvæðis. Þar fundust meðal annars í grávíði dauðir blaðendar, nýjar nálar bergfuru voru sumar sölnaðar í endann og þá höfðu einstaka laufblöð asparinnar afmyndast.

Umhverfisvöktun álversins verður kynnt á opnum fundi sem Umhverfisstofnun stendur fyrir í Þórðarbúð á Reyðarfirði á morgun miðvikudag klukkan 17. Nánar um fundinn. 

Uppfært 16.06.2017

Í fyrstu útgáfu fréttarinnar sagði að styrkur flúors í kjálkabeinum hefði mest mælst þrettánfaldur. Það var vegna misritunar í skýrslu dýralæknis en hið rétta er að styrkurinn var mest tæplega tólffaldur.