Allir sem sóttu um undanþágu fengu hana

14.09.2017 - 14:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Dómsmálaráðuneytið segir að Robert Downey hafi ekki fengið sérmeðferð við afgreiðslu umsóknar hans um uppreist æru. Robert fékk uppreist æru í fyrra, samkvæmt undanþágu frá þeirri meginreglu að fimm ár skulu liðin frá fullnustu refsingar þar til hægt er að fá uppreist æru.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að samkvæmt áralangri stjórnsýsluvenju hafi uppreist æru verið veitt samkvæmt undanþágu, sem heimilar þegar sérstaklega stendur á að veita uppreist æru þegar tvö ár eru liðin frá afplánun refsingar. Mál Roberts hafi því fengið sömu meðferð og önnur mál sambærileg mál undanfarna áratugi.

Frá árunum 1995-2017 fengu 32 uppreist æru. Af þeim fengu fjórtán uppreist æru innan fimm ára, eða næstum helmingur. Hinir sóttu um uppreist æru eftir að fimm ár höfðu liðið frá afplánun refsinga. Engum var hafnað á grundvelli þess að viðkomandi uppfyllti ekki skilyrði um fimm árin.

Ráðuneytið ætlar að birta gögn allra sem fengið hafa uppreist æru frá 1995, í samræmi við úrskurð Úrskurðarnefndar um upplýsingamál, vegna kæru RÚV á synjun ráðuneytisins á beiðni um gögn Roberts Downey.