Aldursgreining á fornleifafundi breytir öllu

09.05.2017 - 16:21
Erlent · Afríka · Fornleifar · Homo naledi · Neo
Höfuðkúpa af beinagrind sem fannst í S-Afríku. Skýrð Neo.
 Mynd: BBC
Talið hefur verið að tegundin Homo naledi, sem fannst í Suður-Afríku, hafi verið uppi fyrir allt að þremur milljónum ára. Nú hafa rannsóknir leitt í ljós að tegundin gæti hafa verið uppi þegar nútímamaðurinn, Homo sapiens, var kominn til sögunnar.

Á vef BBC er greint frá því að vel varðveittar beinagrindur Homo naledi séu merki um að menn af þessari tegund hafi grafið þá látnu. Þetta kemur á óvart þar sem slík hegðun er ekki á allra færi, hvað þá tegundar sem talin er hafa verið með heila sem var einungis þriðjungurinn af stærð heilans í Homo sapiens. 

Homo naledi uppgötvaðist í Suður-Afríku 2013.  Þá fundust beinagrindur 15 einstaklinga, bæði fullorðinna og barna. Beinagrindurnar fundust þar sem hefur verið kallað vagga mannkyns vegna allra þeirra mannabeina sem þar hafa fundist í gegnum tíðina. Fjallað var um fundinn hér á sínum tíma.

Beinin fundust í tveimur hellum, Dinaledi og Lesedi. Sagt var frá fundinum í Dinaledi 2015 en það sem fannst í Lesedi var ekki gert opinbert fyrr en núna.  

Mynd með færslu
 Mynd: BBC

Vel varðveitt höfuðkúpa

Í Lesedi hellinum var að finna beinagrindur tveggja fullorðinna einstaklinga ásamt beinagrind af barni. Að sögn John Hawks, prófessor við Wisconsin-Madison háskólann í Bandaríkjunum, var höfuðkúpan af því sem virðist hafa verið faðirinn í þessari þriggja manna fjölskyldu, mjög vel farin. 

Hawks ásamt Lee Berger, prófessor við Witwatersand háskólann í Jóhannesarborg, voru hluti af teyminu sem rannsakaði og aldursgreindi fundinn.

Vel með farna höfuðkúpan ásamt beinagrindinni sem fannst var skírð Neo en það þýðir gjöf á Sesotho tungumálinu í Suður-Afríku. Eftir að hafa skoðað útlimi Neo komust vísindamenn að því að tegundin hefur verið jafnvíg í trjám sem og jafnsléttu.

Hvort þetta hafi átt við aðrar beinagrindur sem fundist hafa á svæðinu er ekki vitað en oftar en ekki hafa aðeins fundist höfuðkúpur en ekki heilar beinagrindur. Þar má til dæmis nefna Kabwe manninn. 

Hin frumstæða Homo naledi virðist hafa lifað með öðrum Homo tegundum í allt að milljón ár eða meira. Það er mjög undarlegt sökum þess hversu ólíkar tegundirnar eru segir John Hawks. Hann gat ekki sagt til hvort Homo naledi hafi haldið einkennum sínum sökum einangrunar en miðað við að landslagið hefur lítið breyst þá ætti það að vera ómögulegt. Það er ekkert nema flatt graslendi svo langt sem augað eygir, allt til Tansaníu, sagði Hawks við breska ríkisútvarpið.

Jafnframt sagði Hawks að þrátt fyrir að heili H. naledi virðist mun minni en hjá H. sapiens þá eru tennur tegundanna mjög svipaðar og allt bendir til þess að H. naledi hafi notað steinverkfæri. 

Mörgum spurningum er þó ósvarað varðandi H. naledi. Þá helst forsaga tegundarinnar áður en hún finnst árið 2013.

Mynd með færslu
 Mynd: BBC
Kabwe maðurinn (vinstri) H. naledi (hægri)
Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður