Ákvörðun Trumps fordæmd um allan heim

02.06.2017 - 08:11
epaselect epa06004455 US President Donald J. Trump walks from the Oval Office to announces that the US is withdrawing from the Paris climate accord during a Rose Garden event at the White House in Washington, DC, USA, 01 June 2017.  EPA/SHAWN THEW
 Mynd: EPA
Þjóðarleiðtogar víða um heim hafa fordæmt og harmað ákvörðun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að draga Bandaríkin út úr Parísarsamningnum um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Borgarstjórar 68 borga í Bandaríkjunum segjast ætla að virða samninginn þrátt fyrir ákvörðun Trumps. Íslenski umhverfisráðherrann telur að það verði frekar orðstír Bandaríkjanna en aðgerðir gegn loftslagsbreytingum sem eigi eftir að bera skaða af ákvörðun Trumps.

Laurent Fabius, fyrrum formaður loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna segir ákvörðun Trumps skammarlega, og stórfelld mistök. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, segir að Bandaríkjaforseta hafi orðið alvarlega á í messunni. Þetta séu mistök bæði fyrir Bandaríkin og fyrir heimsbyggðina alla, en haldið verði áfram að berjast gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Jarðarbúar deili allir ábyrgðinni.

Frakklandsforseti bauð bandarískum vísindamönnum sem vinna að loftslagsmálum og bandarískum frumkvöðlum að koma til Frakklands og setjast þar að. Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, harmar ákvörðun Trumps.

Þá hringdi Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, í Trump og lýsti yfir vonbrigðum með ákvörðun hans. Trudeau lýsti því yfir að hann ætlaði að halda áfram að vinna með öðrum þjóðum heimsins að því að taka á afleiðingum loftslagsbreytinga.

Borgarstjórar 68 borga í Bandaríkjunum skrifuðu í gærkvöld undir sameiginlega yfirlýsingu þess efnis að þeir hygðust virða efni og markmið Parísarsamningsins um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum hvað sem liði ákvörðun forsetans um að draga Bandaríkin út úr sáttmálanum. Kínastjórn segir að ákvörðun Bandaríkjastjórnar sé skref aftur á bak fyrir heimsbyggðina en Kína, Evrópa og Indland séu nú reiðubúin að efla aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. 

Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra telur að það verði frekar orðstír Bandaríkjanna en aðgerðir gegn loftslagsbreytingum sem eiga eftir að bera skaða af ákvörðun Trumps Bandaríkjaforseta. Björt segir ákvörðunina vonbrigði. „Ýmsir auðvitað, og margir, verða bara fyrir miklum vonbrigðum með þessa ákvörðun leiðtogans, og orðstírinn, það er hann sem mun bíða hnekki að mínu mati,“ segir Björt.

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV