Ákvörðun Seðlabankans mikil vonbrigði

15.03.2017 - 19:16
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir það mikil vonbrigði að Seðlabankinn hafi ekki lækkað stýrivexti. Katrín Ólafsdóttir, sem situr í peningastefnunefnd Seðlabankans, segir það hlutverk hagstjórnarinnar að draga úr uppsveiflu.

„Ég held að ég verði að segja að það séu mikil vonbrigði fyrir atvinnulífið. Við höfum talað fyrir því að það séu í raun allar forsendur fyrir lækkun vaxta eins og sakir standa,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

Hann segir að ef verðbólguhorfur eru skoðaðar fram í tímann liggi fyrir að þær séu undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Verðbólgan hafi nú verið undir markmiðinu í þrjú ár. Hann bendir á að í verðbólguspá bankans, sem nær fram á mitt ár 2018, sé krónan sterkari nú en gert sé ráð fyrir í spánni. Hann segir að væntingar séu að verðbólgan verði enn lægri en bankinn sé að spá. Hann bendir líka á að krónan hafi verið að styrkjast verulega á síðustu misserum.

„Þessir þætti lagðir saman gáfu okkur vonir um það Seðlabankinn myndi hefja vaxtalækkunarferli í dag,“ segir Halldór Benjamín.   Miðað við orð Seðlabankastjóra í dag spáir Halldór vaxtalækkun við næstu vaxtaákvörðun sem verður í maí.

Katrín Ólafsdóttir segir að við vaxtaákvörðunina sé fyrst og fremst verið að horfa á stöðuna í þjóðarbúskapnum. Hagvöxtur hafi verið yfir sjö prósentum í fyrra. Vísbendingarnar það sem af sé ári sé að vöxturinn sé enn mjög mikill.

„Það má ekki gleyma því að hlutverk hagstjórnar er að draga úr uppsveiflu. Þannig að þegar hagvöxtur er á þessari uppleiðog þegar þenslan er farin að myndast, janvel þó að við sjáum hana ekki í verðbólgunni, er nauðsynlegt að hagstjórnin bítið svo lítið í,“ segir Katrín.

Nánrar er rætt við Katrínu og Halldór Benjamín í Speglinum.
 

 

Mynd með færslu
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi