Áhyggjur af upplognum fréttum á netinu

07.12.2016 - 15:41
Mynd með færslu
 Mynd: EBU  -  News Xchange
Margir hafa áhyggjur af vaxandi fjölda upploginna frétta sem birtast á netinu. Umræða hefur skapast um hvort slíkar lygafréttir hafi hugsanlega haft áhrif á úrslit forsetakosninganna í Bandaríkjunum. Málið var til umræðu á fjölmennustu fjölmiðlaráðstefnu heims fyrir nokkrum dögnum.

Farage skammar fréttamenn

Í síðustu viku var fréttaráðstefnan News Xchange haldin í Kaupmannahöfn. News Xchange er haldin á vegum EBU, sambands útvarps- og sjónvarpsstöðva í Evrópu og er umfangsmesta fjölmiðlaráðstefna sem haldin er. Á sjöunda hundrað blaða- og fréttamenn og stjórnendur fjölmiðla sóttu ráðstefnuna í Kaupmannahöfn. Margir gestir ávörpuðu ráðstefnuna og tóku þátt í umræðum, þeirra á meðal Nigel Farage, fyrrverandi formaður breska sjálfstæðisflokksins, UKIP. Í ræðu sinni skammaði Farage fjölmiðla og sagði þá hafa rangt fyrir sér varðandi loftslagsbreytingar af mannavöldum, innflytjendamál og róttæka íslamista. Í umræðum lenti Farage í harðri rimmu við meðal annars Ece Temelkuran, sem er tyrkneskur blaðamaður og rithöfundur. Hún sagði að fyrir fimmtán árum hefði Tyrkland verið venjulegt vestrænt lýðræðisríki, en væri óðum að breytast í harðlínu einræðisríki vegna málflutnings manna eins og Nigel Farage. Fréttastjóri annarrar rásar þýska ríkissjónvarpsins ZDF sagði málflutning Farage svo dæmalausan að helst mætti líkja við það sem tíðkaðist í hans heimalandi fyrir 70 árum. 

Upplognar fréttir

Upplognar fréttir á netinu voru meðal þess sem rætt var um í Kaupmannahöfn í síðustu viku. Á vefsíðu ráðstefnunnar er birt frétt um að Fimmstjörnuhreyfingin á Ítalíu fari mikinn í að breiða út upplognar fréttir. Popúlistaflokkar eins og Fimmstjörnuhreyfingin hefur áður verið sökuð um að nota hálfsannleik og beinar lygar í málflutningi sínum.

Hættulegt fyrir lýðræðið

Ulrik Haagerup, fréttastjóri Danmarks Radio, segir að upplognar fréttir séu eitur fyrir lýðræðislega umræðu.

Nick Robinson er fréttamaður breska ríkisútvarpsins BBC. Hann var til skamms tíma stjórnmálaritstjóri BBC. Hann tekur undir með Haagerup að lýðræðislegri umræðu stafi hætta af lygafréttum.

„Hætta er á að við trúum engu lengur, til þess að við getum tekið ákvarðanir í lýðræðisríki og nýtt atkvæðisréttinn verðum við að hafa upplýsingar, þess vegna valdi ég mér þetta starf,“ sagði Robinson. Anna Lagercrantz, fréttastjóri sænska ríkissjónvarpsins, hefur einnig verulegar áhyggjur af því að hreinum uppspuna sé dreift sem sönnum fréttum og hefðbundnir miðlar hafi ekki reynslu til að bregðast við því.

Próf fyrir menntskælinga

Í tengslum við umfjöllun um upplognar fréttir lagði Danmarks Radio próf fyrir menntskælinga í Hillerød. Þau voru beðin um að skoða tuttugu fréttir og segja hverjar væru sannar, raunverulegar fréttir og hverjar væru ósannar. Engum tókst að svara öllu réttu.

Katerine Dyremose, einn menntskælinganna, sagði að hugsanlega hefðu þau komist nær réttri niðurstöðu ef þau hefðu hugað betur að uppruna fréttanna.

Hvernig á að bregðast við?

En hvernig geta hefðbundnir miðlar brugðist við? Á ráðstefnunni sagði Michael Wegener frá ARD, þýska ríkisútvarpinu, að hlutverk ritstýrðra ábyrgra hefðbundinna fréttamiðla væri að greina kjarnann frá hisminu svo hægt væri að byggja umræðu í samfélaginu á staðreyndum, umræðu sem sé lífleg og afar mikilvæg. 

Það sem við getum gert er að gera áreiðanlegar, aðgengilegar fréttir sem áhorfendur trúa, sagði Nick Robinson frá BBC.

Menntskælingurinn Katerine Dyremose segir að í framtíðinni ætli hún að gæta að uppruna frétta sem hún les á netinu.

 

Mynd með færslu
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi