Áhyggjuefni hve mörgum konum var sagt upp

13.05.2017 - 16:22
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness, hefur áhyggjur af því að með ákvörðun HB Granda um að draga úr starfsemi á Akranesi hverfi mörg kvennastörf úr bænum. Það séu klárlega mikil vonbrigði að botnfiskvinnslu verði hætt og fólk missi vinnu og hafi haft þung áhrif á fólk.

Sævar Freyr bindur miklar vonir við það hægt sé að snúa þessu í tækifæri og enn sé verið að ræða við HB Granda og fleiri um sjávartengda starfsemi í Akranesi. Þær umræður séu enn á trúnaðarstigi en hann sé vongóður þó að ekkert sé enn í hendi. Uppsagnir tuga manna hafi óhjákvæmilega áhrif á afleidd störf í sveitarfélaginu. 

 Atvinnuástand á Akranesi sé gott en honum er sérstakt áhyggjuefni hve mörgum konum hafi verið sagt upp. Þarna séu margt hæft starfsfólk sem hafo mikla sérþekkingu úr fiskvinnslu og Sævar Freyr bindur vonir við þá yfirlýsingu HB Granda að reynt verði að tryggja öllum vinnu við sitt hæfi. 

 Hann segir að útgerð og fiskvinnsla verði áfram meginstoð í atvinnulífinu á Akranesi; til þess að svo megi verða haldi  uppbygging við Akranesshöfn áfram  hún hafi verið afskipt í fjárfestingum Faxaflóahafna. Rætt var við Sævar í Vikulokunum á rás eitt í morgun.