Áhorfandi fékk að spreyta sig á Wimbledon

17.07.2017 - 11:42
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot af vef Independent  -  RÚV
Afar óvenjulegt atvik átti sér stað á Wimbledon mótinu í tennis þegar áhorfanda var boðið inn á völlinn til að taka þátt í leiknum. Manninum var troðið í hvít keppnisklæði og hann fékk að spila um stund á móti tennisstjörnunni Kim Clijsters.

Áhorfendum á keppnisleikjum er tamt að hrópa ýmis ókvæðisorð inn á völlinn í hita leiksins, sem hefur í flestum tilvikum lítil sem engin eftirmál. Hróp Írans Chris Quinn á Wimbledon mótinu í tennis drógu hins vegar dilk á eftir sér. Hann var meðal áhorfenda á tvíliðaleik kvenna á föstudag þegar Kim Clijsters og Rennae Stubbs öttu kappi við Conchitu Martinez og Andreu Jaeger. 

Eftir að Chris lét skoðun sína á spilamennsku leikmanna í ljós með háværum hætti var honum boðið að koma inn á völlinn og prófa sjálfur. Strangar reglur Wimbledon mótsins kveða á um að keppendur verði að klæðast hvítu og því var ekkert annað í boði en að honum yrði troðið í hvítt pils og bol. Síðan fékk hann að spreyta sig á uppgjöfum Kim Cljisters, en hún er margfaldur meistari í tennis. Chris stóð sig ágætlega og áhorfendur og leikmenn höfðu gaman af uppátækinu. 

Myndband af atvikinu skemmtilega, fengið af vef Independent

Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV