Áhersla lögð á að halda jafnvægi í hagkerfinu

12.09.2017 - 09:35
Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir  -  RÚV
Fjármálaráðherra segir fjögur hagstjórnarmarkmið í fjárlagafrumvarpinu; aðhald í ríkisrekstri á meðan þensla er mikil, að varðveita kaupmátt launa með sátt á vinnumarkaði, að stuðla að stöðugleika í gengismálum og að tryggja og efla opinbera þjónustu og innviði. Gert sé ráð fyrir að heildarafkoma ríkissjóðs skili um 44 milljarða króna afgangi.

Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra kynnti frumvarpið á blaðamannafundi í morgun. Hann sagði að þótt gert væri ráð fyrir 44 milljarða afgangi á fjárlögun væru vaxtagjöld enn há, eða 73 milljarðar.

Benedikt sagði helstu fréttir frumvarpins þær að fyrirhuguð virðisaukaskattshækkun á ferðaþjónustu taki gildi 1. janúar 2019. Þá fari ferðaþjónusta í hærra virðisaukaskattsþrep og að almenna þrepið verði lækkað í 22,5%

Benedikt segir að spenna í hagkerfinu hafi náð hámarki og kaupmáttur og landsframleiðsa sé kominn hátt upp fyrir hágildi áranna 2007-2008. Enn sjái ekki fyrir endann á núverandi hagvaxtarskeiði. Megináherslan sé því að halda jafnvægi í hagkerfinu.