AGS og evruríki henda líflínu til Grikkja

21.07.2017 - 01:30
Mynd með færslu
 Mynd: CC0  -  Pixabay
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn samþykkti seint í dag nýja lánaáætlun til Grikkja sem hljóðar upp á 1,8 milljarð bandaríkjadala, jafnvirði tæplega 190 milljarða króna. Grikkir fá þó peninginn ekki í hendurnar strax, heldur greindi AGS frá því að lánið hafi verið samþykkt í meginatriðum.

AFP fréttastofan segir það gert til þess að sannfæra fjármálaráðherra evrusvæðisins um að halda lánaáætlun sinni áfram til Grikkja. Evruríkin samþykktu í síðustu viku 8,5 milljarða evra lánaáætlun sína til Grikkja, rétt áður en greiðslufrestur á 7 milljarða evra láni fellur.

Grikkir skulda verulegar upphæðir og segir AGS að evruríki verði að aflétta talsverðri upphæð svo ríkið geti borið sig. Þjóðverjar neita hins vegar að aflétta frekari skuldum nema AGS taki þátt í lánaáætlunum til ríkisins. AGS brá því á það ráð að samþykkja lánaáætlunina í kvöld til málamiðlunar, án þess að greiða Grikkjum neitt út strax.

Grískur efnahagur var að hruni kominn árið 2010 vegna gríðarlegra skulda. Önnur ríki á evrusvæðinu björguðu þeim þrisvar til þess að forðast hrun evrunnar. Stöðugleikasjóður Evrópusambandsins heldur ríkissjóði Grikklands uppi með lánum á lágum vöxtum þar til í júlí á næsta ári.