Áform um að margfalda laxeldi í sjó

17.03.2017 - 12:32
Áætlað er að framleiðsla á eldislaxi á Íslandi margfaldist á allra næstu árum. Sótt hefur um fjölda leyfa á Austfjörðum og Vestfjörðum og hyggja fyrirtækin á mikinn vöxt.

Laxeldisfyrirtækin vilja stækka

Mikil umsvif eru nú í fiskeldi við Ísland og þá sérstaklega með auknu eldi á norskum laxi. Þetta hefur vakið miklar deilur vegna mögulegra áhrifa á íslenska laxastofna. Árið 2010 voru framleidd 5.000 tonn af eldisfiski. Framleiðslan hefur þrefaldast síðan þá. Á síðasta ári var mest slátrað af regnbogasilungi og laxi úr sjó, rúmlega 8.000 tonnum en fiskeldin eru með leyfi fyrir sex sinnum meira eldi: „Það tekur mjög langan tíma að ná framleiðslunni uppí það magn. Það sem er talið vera hagkvæmt fyrir sjókvíafyrirtæki. Það er 15-20 þúsund tonn svo öll fyrirtækin stefna þangað. Að minnsta kosti,“ segir Höskuldur Steinarsson, framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva.

Margföldun leyfa í farvatninu

Á Vestfjörðum voru framleidd 6.800 tonn af laxi og regnbogasilungi í fyrra. Þar eru hins vegar leyfi fyrir um 30.000 tonnum. Og áætlanir eru um að á næstu árum nái sú tala yfir 60.000 tonnum á eldi á laxi. Á Austfjörðum voru framleidd 1.500 tonn. Leyfi er þó fyrir mun meira eldi og í farvatninu er margföldun á magni þess sem er leyfilegt nú. 

Regnbogasilungur á undanhaldi

Þrátt fyrir að regnbogasilungurinn sé geldfiskur og blandist ekki íslenskum stofnum þá er hann á undanhaldi þar sem laxinn er eftirsóttari á mörkuðum. „Sem eldisdýr er hann mjög hagkvæmur, hefur góðan vaxtarhraða og er sterkbyggður,“ segir Höskuldur. Talið er að árið 2018 verði framleiðsla á laxi í sjó þrisvar sinnum meiri en á síðasta ári og jafnvel sjö sinnum meiri árið 2020. „Það sem dregur þá þróun áfram er náttúrlega aukin þörf fyrir prótein, dýraprótein í heiminum,“ segir Höskuldur.

Hafrannsóknastofnun vinnur að burðarþolsmati á fjörðum fyrir sjókvíaeldi en Höskuldur telur að þegar á hólminn sé komið gæti það verið 100 þúsund tonn. Framleiðsla á laxi síðasta árs var um sex prósent af því.