Afgangurinn í takt við fjármálaáætlun

12.09.2017 - 12:17
Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson  -  RÚV
Markmið í fjárlagafrumvarpi um 44 milljarða króna afgang á rekstri ríkissjóðs á næsta ári er í samræmi við fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var í júní. Samkvæmt henni á að reka ríkissjóð með afgangi sem nemur minnst 1,5 prósentum af vergri landsframleiðslu á næsta ári. Það er um 40 milljarðar króna miðað við fjárhagslegar forsendur frumvarpsins. Þetta er gert til að vega á móti þenslu.

Dregið verður úr aðhaldi eftir því sem dregur úr þenslu. Samhliða því má gera ráð fyrir að afgangur á ríkissjóði fari minnkandi.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verður ekkert af því að ferðaþjónustan færist í efra þrep virðisaukaskattskerfisins um mitt næsta ár. Það frestast til ársbyrjunar 2019. Þetta hefur í för með sér að tekjur ríkissjóðs eru áætlaðar 8,9 milljörðum króna lægri en annars hefði orðið. Á móti kemur að endurmat skattstofnana leiðir til 5,2 milljarða króna hækkunar og kerfisbreytingar á vörugjöldum skila 1,8 milljarði króna aukalega í ríkissjóð.

Virðisaukaskatturinn lækkar eftir næsta ár, úr 24 prósentum í 22,5 prósent. Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra sagði á kynningarfundi um fjárlagafrumvarpið að það væri heppilegt að færa ferðaþjónustuna í efra skattþrep á þeim tímapunkti. Með því kæmust menn hjá tvennu, að skattur á ferðaþjónustu hækkaði á miðju ári og að skattur á ferðaþjónustu hækkaði fyrst, í nokkra mánuði, og lækkaði svo.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV