Afgangurinn ekki notaður í uppbyggingu

13.09.2017 - 20:47
Ríkisstjórnin býður upp á stöðnun en ekki uppbyggingu, sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. Hann spurði hvenær ef ekki núna væri tækifæri til að efla grunnþjónustuna og byggja upp.

Sigurður Ingi sagði að ræða forsætisráðherra hefði ekki gefið til kynna að nota eigi tugmilljarða afgang af ríkissjóði til að búa heilbrigðis-, mennta- og samgöngukerfið í haginn fyrir framtíðina. Hann sagði heilbrigðisstofnanir og skóla þurfa öfluga uppbyggingarstefnu en ekki stöðnun. „Landsmenn vilja fjölbreytta þjónustu í takt við þarfir á hverjum tíma, óháð búsetu, og aðgengi má ekki takmarka út frá efnahag fólks.“

Þá þarf að bæta stöðu aldraðra og gera þeim auðeldara að taka virkan þátt í samfélaginu með því að taka strax upp sveigjanleg starfslok og hækka frítekjumörk, sagði formaður Framsóknarflokksins.

Sigurður Ingi sagði það lykilatriði, til að takast á við áskoranir framtíðarinnar, að menntun sé fjölbreytt og að ýtt sé undir nýsköpun. Þannig fái mannauðurinn, stærsta auðlindin, að njóta sín. Ríkisstjórnin virðist heldur ekki ætla að nota afganginn af rekstri ríkissjóðs til að byggja upp samgöngukerfið, þó vegakerfið sé víða bágborið, sagði Sigurður Ingi. 

Sigurður Ingi kallaði líka eftir uppstokkun á bankakerfinu og rannsókn á samspili hárra vaxta og gengis til að koma í veg fyrir óeðlilegar sveiflur og fyrirbyggja skaða fyrir útflutningsatvinnugreinar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV