Af froðufellandi málfarslöggum

Bókmenntir
 · 
Kastljós
 · 
Kastljós
 · 
menningin
 · 
Menningin
 · 
Pistlar
 · 
Menningarefni

Af froðufellandi málfarslöggum

Bókmenntir
 · 
Kastljós
 · 
Kastljós
 · 
menningin
 · 
Menningin
 · 
Pistlar
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
10.03.2017 - 12:16.Halla Oddný Magnúsdóttir.Menningin, .Kastljós
Þórdís Gísladóttir flutti pistil um íhaldssemi sumra gagnvart íslensku máli.

Fjölmiðlafólk og við sem tjáum okkur stundum opinberlega fáum oft eitraðar pillur frá froðufellandi málfarslöggum. Það fer í fínustu taugar margra að reka augun í ambögur eða heyra kæruleysislega meðferð móðurmálsins. Hvernig stendur á því að tungumálið er jafn eldfimt og hættulegasta sprengiefni?

Málnotkun vekur sterkar tilfinningar. Facebooknotendur krækja á greinar og benda á ónákvæma orðanotkun og illa orðaðan vaðal, internetið er gullnáma fyrir fólk sem alltaf er með fingurinn á lofti! En hvers vegna eru sjálfskipaðar málfarslöggur svona pirraðar, hvers vegna nennir fólk að standa í því að hnýta í það sem því finnst óvandað málfar, þegar það er nokkuð ljóst að það hefur varla nokkur áhrif? Jú, fólk er skeptískt á breytingar, það vill halda hlutunum og þar með tungumálinu eins og það þekkir það og telur að heimurinn sé á leið til andskotans ef bátnum er ruggað. Og auðvitað þurfum við öll að læra allskonar reglur. Líka málfarsreglur, það er nauðsynlegt að menn setji sér viðmið um hvað sé viðurkennt tungutak. En tungumál breytast, sama hvað hver segir. Enginn á tungumálið og sem betur fer eru ekki til lög um hvernig við eigum að nota það. Mér finnst leiðréttinglaðir beturvitar oft missa af skemmtilegum og skapandi þætti þess að snúa upp á málið, sveigja reglur og semja ný orð. Kannist þið við sögnina að hámhorfa, dagaheitið millari, verðurfarslýsinguna rónablíða og nafnorðið blandinavíska? Þessi orð eru öll nýskráð í slangurorðabókina og þið fáið rokkprik ef þið kannist við þau.