Ætlar að kaupa ný lyf fyrir á annan milljarð

27.04.2017 - 22:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Heilbrigðisráðherra segir von á um tveggja milljarða fjárveitingu til kaupa á nýjum lyfjum. Til greina komi að fara í samstarf við nágrannalöndin til þess að ná hagstæðum samningum við lyfjakaup.

Ekkert hefur bólað á aukafjárveitingu til kaupa á nýjum lyfjum, það er lyfjum sem ekki hafa áður verið reynd á Íslandi. Í fjárlögum þessa árs var ekki gert ráð fyrir nýjum lyfjum. „Það var ljóst í upphafi árs að það væri gat í fjármögnun í lyfjaliðnum á fjárlögum og við höfum verið að vinna það með fjármálaráðherra að brúa það gat,“ segir Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra.

Jakob Falur Garðarsson, samtökum frumlyfjaframleiðenda, segir stöðuna grafalvarlega. „Það er sagt að það verði bætt í, það var gert í febrúar, en fjármunirnir eru ekki komnir og á meðan svo er þá erum við með, því miður, lækna sem óska eftir að nota ákveðnar lyfjameðferðir, þær eru í notkun í löndunum í kringum okkur en því miður eru ekki í boði hér. Og á meðan að svo er, þá er einhver sem bíður eftir að fá að nota viðkomandi lyf.“

Heilbrigðisráðherra segir að ríkisstjórnin ætli að veita auka fjármagni til lyfjakaupa. Lyfjaafgreiðslunefnd muni taka ákvörðun um innleiðingu nýrra lyfja á næstu dögum. „Við erum að undirbúa innleiðingu á nýjum lyfjum í samvinnu við lyfjaafgreiðslunefnd í samvinnu við Landspítalanum. Við höfum verið að vinna með tölur sem að eru vel á annan milljarð í allt yfir árið. En við með fjármálaráðuneytinu erum enn að fínpússa niðurstöðuna. Og auðvitað er margt sem kemur inn í; þörfin, hvað eru margir sjúklingar, hvað notum við mikið af lyfjunum, hver verður staða krónunnar og svo framvegis.“

Hann segir koma til greina að Ísland fari í samvinnu með nágrannalöndunum við kaup á nýjum lyfjum. „Við höfum verið í viðræðum á norrænum vettvangi við að undirbúa svona vinnu.“

 

Mynd með færslu
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV