Ætlar að búa á ísjaka í heilt ár

11.01.2017 - 22:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ítalskur ævintýramaður sem ætlar að búa í heilt ár á toppi ísjaka á Grænlandi ætlar að byrja á því að ganga yfir Vatnajökul. Tilgangurinn er að vekja mannkynið til umhugsunar um áhrif loftlagsbreytinga.

Ítalski ævintýramaðurinn Alex Bellini hefur gert margt óvenjulegt um ævina. Hann hefur meðal annars hlaupið þvert yfir Bandaríkin, gengið yfir Alaska, róið einn yfir Atlantshafið á 227 dögum og yfir Kyrrahafið á 294 dögum. Og nú er komið að Íslandi.

„Ég ætla á skíðum yfir Vatnajökul, frá öðrum jaðri hans yfir til hins, á skíðum og með sleða,“ segir Bellini.

Gangan yfir Vatnajökul er þó bara einungis forsmekkurinn að stærra verkefni sem Bellini er með í bígerð á Grænlandi.

„Ég á mér draum að komast af á ísjaka þar til hann bráðnar. Ég veit að það hljómar fáránlega en mig hefur dreymt um þetta síðastliðin tíu ár. Þetta snýst um að ég lifi af á ísjaka í litlu björgunarhylki sem er þrír metrar í þvermál, og sérstaklega smíðað fyrir mig. Og það verður vonandi heimili mitt í mesta lagi tólf mánuði.“

Getur lent í sjónum

Bellini stefnir að því að flytja á ísjakann á næsta ári. Aðspurður segir hann verkefnið vissulega hættulegt.

„Til dæmis gæti svona hylki á ísjaka farið á hvolf, löngu áður en ísjakinn bráðnar. Við bráðnunina getur jafnvægið breyst og við það get ég farið í sjóinn. Það er ekki huggulegt að lenda í sjónum í miklum kulda,“ segir Bellini og hlær.

Hann segir að tilgangurinn sé að vekja mannkynið til umhugsunar um áhrif loftlagsbreytinga og bráðnun jökla. 

„Ef ég get komist af á ísjaka og séð með eigin augum afleiðingarnar af framferði mínu, breytti ég kannski hegðuninni til hins betra og ég vona það mín vegna og þeirra sem fygja mér.“

Bellini heldur erindi um verkefnið á málstofu Orkustofnunar í hádeginu á morgun. Málstofan hefst klukkan 11:45 og verður í húsakynnum stofnunarinnar við Grensásveg 9. Málstofan er öllum opin en nauðsynlegt er að skrá sig á fundinn með því að senda póst á os@os.is.

Mynd með færslu
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV