Ætla að útrýma plastpokum í Skagafirði

15.05.2017 - 09:18
„Ég held að okkur líði mjög mörgum þannig að okkur langi að gera eitthvað sem skiptir máli, til dæmis varðandi umhverfismálin, eitthvað sem munar um. Og þetta er bara eitthvað sem við getum gert með einföldum hætti heima hjá okkur. Og það skiptir máli," segir Svanhildur Pálsdóttir sem er ein þeirra kvenna sem standa á bakvið pokastöðina í Skagafirði.

Pokastöðin er sjálfsprottið verkefni nokkurra skagfirskra kvenna sem miðar að því að minnka plastpokanotkun með því að sauma taupoka sem fólk getur fenigð að láni. Pokunum verður dreift í matvöruverslanir í Skagafirði og þar geta viðskiptavinir tekið sér poka án endurgjalds og skilað honum aftur seinna. 

Pokastöðvar eins og þessi hafa skotið upp kollinum víða undanfarið. Til dæmis á Höfn í Hornafirði og í Neskaupstað. Hugmyndin kemur frá Ástralska verkefninu Boomerang Bags sem er orðið að alþjóðlegri hreyfingu. 

„Við höfum komið saman nokkrum sinnum í vetur í þetta verkefni og settum okkur það markmið í upphafi að sauma 1000 poka fyrir vorið," segir Svanhildur og það er ekki hægt að segja annað en að það gangi vel. Skagfirðingar hafa losað sig við gamlar gardínur, dúka, sængurföt og stuttermaboli sem nokkrar vaskar konur hafa breytt í fínustu innkaupapoka.

„Það dynja náttúrulega á okkur núna upplýsingar um það hvað plast er skaðlegt lífríkinu og sjónum til dæmis og þetta er bara eitt lítið skref í þá átt að reyna að gera eitthvað gagn," segir Svanhildur. 

Landinn fór í Skagafjörð og forvitnaðist um verkefnið. 

Mynd með færslu
Þórgunnur Oddsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Landinn