Aðventa Gunnars Gunnarssonar er bók vikunnar

15.12.2016 - 12:33
Bók vikunnar er Aðventa Gunnars Gunnarssonar. Þessi umfjöllun var áður á dagskrá um svipað leyti árs árið 2013 en þar sem frásögnin af eftirleit Fjalla-Bensa er orðin svo ríkur þáttur í hefðum jólaaðventunnar á Íslandi þykir við hæfi að endurtaka þennan þátt. Umsjónarmaður er Jórunn Sigurðardóttir sem ræðir við skáldin Auði Övu Ólafsdóttur og Jón Kalman Stefánsson um verkið.

Sagan um hættuför Benedikts með hundi sínum Leó og forystusauðnum Eitli um snæviþakin öræfi norður í landi þykir meistaralega unnin af hendi Gunnars. Sagan hefur trúarlega drætti en fjallar þó fyrst og fremst um vegsemd og vanda manneskjunnar í heiminum.

Hér má hlusta á lestur Þorsteins Ö. Stephensens fyrrum leiklistarstjóra Ríkisútvarpsins á broti úr sögunni sem fyrr í vikunni var á dagskrá þáttarins Víðsjár. Þegar hér er komið sögu er Benedikt Sigurjónsson, Fjalla-Bensi, búinn að vera nokkra hríð við eftirleit sína. Það hefur gert vonskuveður og hann sér ekki fram á að honum muni takast að finna holuna sína, eins og hann kallar svolítið afdrep sem hann hafði gert sér utan í hólbarð í fyrstu ferð sinn inn á öræfi á aðventunni fyrir tuttugu og sjö árum. Að þessu sinni hefur hann því neyðst til að grafa sig í fönn. Hann hefur þó gætt að því að stinga staf sínum í fönnina þannig að snúi til norðurs svo að hann næði að átta sig þegar hann héldi aftur af stað.

Sögubrotið er í tveimur hlutum og má heyra seinni hluta brotsins þegar viðtali við Jón Yngva Jóhannsson bókmenntafræðing lýkur en hann ritaði ævisögu Gunnars Gunnarssonar, Landnám.

Lestur Þorsteins Ö. Stephensens úr Aðventu var hluti af þætti Hjartar Pálssonar Stund með Gunnari skáldi Gunnarssyni sem gerður var í tilefni áttatíu og fimm ára afmælis skáldsins áriði 1975.

 

Mynd með færslu
Jórunn Sigurðardóttir
dagskrárgerðarmaður
Bók vikunnar
Þessi þáttur er í hlaðvarpi