Ábyrgð og orðræða á netinu

03.05.2017 - 16:40
„Hvað er það að bera ábyrgð?“ spyr Karl Ólafur Hallbjörnsson, sem er ævinlega á sveimi hinna ýmsu króka og kima á veraldarvefnum í Lestinni á Rás 1. Hér fjallar hann um ábyrgð og orðræðu á netinu.

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar: 

Tækni hefur fært okkur alheiminn í lófann á okkur — eða svona næstum því. Við getum gert ótal hluti með snjallsímanum okkar, hvar sem við erum stödd: verslað í matinn, sent vandamönnum í Tókýó skilaboð, skráð okkur í skóla, sagt upp vinnunni okkar, reynt við fólk, hraunað yfir Facebook-færslu forsætisráðherra, sagt einhverjum að við séum ástfangin af þeim. Ekkert af þessu er tæknilega séð nýtt, í þeim skilningi að það var hægt að gera þetta allt fyrir öld snjallsíma og hefur verið hægt í árþúsundir. Munurinn er hins vegar þessi nálægð, þetta tafarleysi — sem gefur allri okkar breytni nýja áferð. Málið er að þessi áferð og þessi hraði hafa veigamikil áhrif á það hvernig við hugsum um vefinn og notagildi hans, sem og hlutverk okkar sjálfra sem siðferðispersóna innan veraldarvefsins.

Okkur finnst sumum eins og það sé einhver gjá milli raunheimsins og hins stafræna heims, eins og við séum aðrar persónur þegar við förum á netið en þegar við förum út í kjörverslun. Kannski hefur það eitthvað að gera með að vefþjónustur bjóða manni upp á að „stofna aðgang“ sem hefur mörg formleg einkenni raunverulegrar persónu: heimilis- og netfang, nafn, fæðingardag, kyn, og svo framvegis — en munurinn er sá að á netinu er sanngildi þessara upplýsinga að vissu leyti undir þér sjálfum komið. Maður getur því, á áhrifaríkan hátt, bókstaflega skapað nýja persónu — nýtt andlit, nýjan persónuleika, nýja framkomu. Maður getur stofnað Facebook-aðgang sem heitir Róbert Róbert Róbertsson, smellt upp forsíðumynd af Manchester United-lógóinu og byrjað að hrauna yfir stjórnmálamenn, hótandi þeim öllu illu í kommentadálkum netmiðla og opinna hópa samfélagsins.

Bæld reiði í grænum froskum

Breski dekadent-rithöfundurinn og leikritaskáldið Oscar Wilde sagði eins og frægt er orðið að menn séu hvað minnst þeir sjálfir þegar þeir komi fram undir eigin nöfnum — og vilji maður heyra frá þeim hreinskilin svör sé skilvirkast að ljá þeim grímu. Margt er til í þessu þótt klisjukennt sé orðið, og er sérlega lýsandi fyrir almennt ástand kommentakerfa á internetinu í dag: vilji maður ekki þurfa að gangast undir ábyrgð fyrir orðum sínum er það eins auðvelt og að setja grænan frosk íklæddan einkennisbúningi nasista sem forsíðumynd, kalla sig Herra Pepe eða eitthvað í þeirri æð, og byrja svo að tala illa um múslima eða samkynhneigða eða konur eða hvað annað sem manni dettur í hug þegar maður er nýnasisti. Andrúmsloftið sumstaðar er orðið viðurstyggilegt og varla heiglum hent að hætta sér nálægt ákveðnum svæðum internetsins. Hatrið er nánast áþreifanlegt og það er orðið erfitt að anda á þessum svæðum vilji maður ekki smitast af bældu reiðinni sem látin er gossa.

Spurningin er þó, þvert á Wilde, hvort ekki sé öfugt farið fyrir mörgum — að menn séu nú fyrst raunverulega orðnir hvað minnst þeir sjálfir þegar þeir bera uppi grímuna. Gríman, sem í fyrstu kann að hafa veitt þeim útrás, er nú orðin að aðskotahlut fyrir þeim — hún byrgir þeim sjón, hún stimplar þá sem eitthvað sem þeir eru ef til vill að einhverju leyti en eru alls ekki algjörlega, hún þrengir að öndunarfærum þeirra, hún er orðin kæfandi. Kannski er froskagríman, sem er orðin svo algeng hjá hinu-hægrinu og öðrum nettröllum, merki um að lítt sé að marka það sem þessir nafnlausu notendur segja — að þeir séu einna hvað minnst með sjálfum sér, með meðvitund, um það sem þeir halda fram, um hugmyndafræðilega andrúmsloftið sem þeir í sameiningu gefa af sér. Kannski eru þetta að miklu leyti einfaldlega afvegaleitt ungt fólk, óvisst um hvert það stefnir, týnt og meira en smá óttaslegið — kýlandi út frá sér til þess eins að fá viðbrögð.

Ofbeldi í iðrum samfélagsins

Það kann að leynast eitthvað sannleikskorn í þessum vangaveltum mínum, en að sama leyti kunna þær að vera úti á akri, svo að segja — þetta fyrirbæri Trump-dýrkunar, mjúkfasisma og þjóðernishyggju er eins heillandi og þaðer fráhrindandi — eitthvað við það er svo forvitnilegt, svo þarft að varpa ljósi á, en á sama tíma býður manni svo við orðræðu þessa fólks að erfitt er að halda sig nálægt þeim meira en stutta stund að hverju sinni. Ég þykist ekki hafa nein afgerandi svör við því hvað það er sem knýr menn til þess að fara á ígildi hugmyndafræðilegs fyllerís, nafnlauss á internetinu, kallandi eftir tærð hvíta kynstofnsins, byggingu veggja milli þjóða, stríði við kynferðislega úrkynjun og ýmissa annarra fullyrðinga.

Kannski hefur það eitthvað að gera með það að internetið frelsi mann undan ábyrgðinni sem felst í því að vera maður sjálfur á sama tíma og það leggur enn þyngri ábyrgð á herðar manni: að vera einhver annar. Kannski hefur það eitthvað að gera með ofbeldið sem við byrgjum inni, djúpt í iðrum samfélagsins, og að þessi birtingarmynd sé fátt annað en vellankatla úr sprungum á yfirborðinu, strokkur sem brýst út vegna pressunnar undir niðri. Eitthvað hér er órætt, og ég treysti mér ekki til að fullyrða neitt um frumuppsprettur þessarar staðáttu.

Ábyrgð og orsakakeðjur

Hins vegar vil ég hugsa aðeins nánar um hvað það er að bera ábyrgð. Hvað er það að bera ábyrgð? Er það að gangast undir þann persónulega og samfélagslega merkimiða að eitthvað eigi sér uppsprettu sína í manni sjálfum, að það sé þegar öllu er á botninn hvolft framlenging af manni sjálfum? Að einhverju leyti, held ég — en ekki alveg, er það nokkuð? Þegar maður gegnst undir ábyrgð er maður að lýsa yfir einhverju orsakavaldi yfir því sem maður segist vera ábyrgur yfir, en aðeins að því leyti sem maður sjálfur áætlar. Þetta er ef til vill lykilhugtak hér. Þegar maður lýsir yfir ábyrgð getur maður aðeins lýst henni yfir það svið orsakakeðjunnar sem maður áætlar að hafa verkan á.

Þegar ég til dæmis sparka bolta í átt að marki er ég að lýsa yfir ákveðinni ábyrgð hvað varðar stefnu boltans, kraftinn sem fer í að ýta honum í þessa átt, og ef hann lendir í markinu fær liðið mitt stig undir mínu nafni — en ef hann fer gleitt á markið gæti verið að ég þurfi að hlaupa af vellinum og sækja hann. Ábyrgð, hins vegar, nær aðeins svo langt sem skynsamlegt er að eigna manni orsakavald — í sama dæmi er ekki hægt að segja að ég sé ábyrgur fyrir því að lítil vindhviða sem varð af boltanum feyki agnarsmárri krabbameinsvaldandi sameind inn um öndunarfæri einhvers sem horfði á fótboltaleikinn, valdandi því að áhorfandinn verður krabbameinssjúkur. Jafnvel þótt hægt væri að rekja þessa ör-atburðarás yrði ég aldrei gerður ábyrgur fyrir henni, jafnvel þótt tæknilega séð hefði áhorfandinn aldrei fengið krabbamein hefði ég ekki sparkað í boltann. Er þetta fáránlegt dæmi? Já, kannski. En punkturinn stendur samt: stundum hafa gjörðir okkar stórvægileg áhrif sem við höfðum aldrei áætlað eða jafnvel ímyndað okkur að væru almennt möguleg. Til er gamalt orðtak sem hljómar einhvern veginn á þann veg að slengi maður steinvölu sé hún Satans — og það á vel við hér. Einhversstaðar endar yfirráðasvið okkar mannanna, og forlögin taka við stýrinu.

Steinvölurnar hafa áhrif

Kannski er aukin meðvitund um áhrifasvið okkar, ábyrgð og heim möguleikans almennt það sem við þurfum. Kannski þurfum við að hugsa okkur betur um áður en við slengjum okkar steinvölum, hvort sem er úr glerhúsum eða af berangri, í raunheimum eða hinum stafræna heim. Hvort sem er getur valan haft afleiðingar sem okkur óraði ekki fyrir að væru mögulegar.

Ég þykist síður en svo ætla að segja ykkur, hlustendur, hvað þið megið og megið ekki segja á alnetinu. Það eina sem ég meina með þessum vangaveltum hér er að heimurinn væri eflaust örlítið skárri staður ef við hugsuðum okkur öll tvisvar um áður en við skrifum athugasemdir eða smellum á like eða annað þvíumlíkt — svo að lokum vil ég bara segja: farið nú varlega með orðræðuna ykkar, því það er aldrei að vita á hvern hún klessir. Góðar stundir.

Mynd með færslu
Anna Gyða Sigurgísladóttir
dagskrárgerðarmaður
Lestin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi