Á sviðinu spyrjum við hver við erum

Bókmenntir
 · 
Leiklist
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá

Á sviðinu spyrjum við hver við erum

Bókmenntir
 · 
Leiklist
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá
Mynd með færslu
08.05.2017 - 16:07.Halla Þórlaug Óskarsdóttir.Víðsjá
Magnús Þór Þorbergsson varði nýverið doktorsverkefni sitt í almennri bókmenntafræði. Ritgerðin bar titilinn Leiksvið þjóðar: Þjóð, stétt, sjálfsmynd og mótun leiklistarvettvangs á Íslandi 1850-1930.

Aðspurður að því hverjir sóttu leikhús á þessum árum segir Magnús að aðsókn almennings að opinberum leiksýningum hafi verið mikil, alveg frá upphafi. Hann tekur dæmi um fyrstu opinberu leiksýninguna, gamanleikinn Pak eftir Thomas Overskou, 1854. „En í rauninni vitum við ekki alveg hvort að allir bæjarbúar hafi séð þessa sýningu, eða hvort að fólk fór aftur og aftur.“

En örlaði á einhvers konar stéttarskiptingu í menningarmálum á þessum tíma? Var „elítismi“ á Íslandi? 

„Það er kannski sérstaklega áhugavert að velta upp þessari spurningu nokkrum árum eftir þessa sýningu, upp úr 1860, þá kemst svolítill kippur í leiklistarstarfsemi í Reykjavík, sérstaklega var það Sigurður málari Guðmundsson sem var höfuðpaurinn í þessari starfsemi. Þar var ekkert óalgengt að leikverk væru sett upp á dönsku. Jafnvel leikinn Molière á dönsku, milli þess sem sýndar voru lifandi myndir úr Eddukvæðunum. Hins vegar voru ekkert allir reiprennandi í dönsku á þessum tíma, svo einhvers konar áhersla á efri stétt, vaxandi borgarastétt, hefur verið þegar komin fram um miðbik 19. aldar.“

Magnús segir að fólk af öllum stéttum hafi hins vegar sótt leikhúsið og jafnvel hafi verið lögð áhersla á það af bæjarstjórninni að laða að þá sem minna mættu sín. Til dæmis var Leikfélagi Reykjavíkur gert að bjóða upp á nokkrar sýningar á hverju leikári á 50% afslætti. Þessar sýningar voru kallaðar alþýðusýningar. 

Stofnun Þjóðleikhúss var stórt skref í sjálfsmyndarsköpun íslensku þjóðarinnar. Íslendingar urðu þjóð meðal þjóða, horft var til Evrópu - sérstaklega Kaupmannahafnar - og leikhúsfólk ferðaðist um álfuna til að sækja sér innblástur. 

En nú, tæpum hundrað árum eftir að Ísland fékk fullveldi, og þjóðarsjálfsmyndin tók stakkaskiptum á sviði, erum við enn að þreifa fyrir okkur í þessum efnum. Leikhús í eðli sínu hlýtur auðvitað að horfa til annarra landa og fylgjast með straumum og stefnum um veröld alla, en hvernig er íslensk leikhússjálfsmynd í dag?

„Það hafa verið settar fram ákveðnar kenningar um það að í hvert skipti sem þjóð lendir í einhvers konar krísu þá bregðist leikhúsið við því með því að takast á við spurninguna um sjálfsmyndina. Þetta sáum við gerast mjög áberandi strax eftir hrun, þar sem til dæmis Þjóðleikhúsið bregst við með því að leita í Halldór Laxness, til þess að takast á við spurninguna hver erum við í dag? og Laxness verður að svolítilli tilraunastofu til að takast á við hana. Á sama tíma í Borgarleikhúsinu er farið svolítið aðra leið, þar sem hópurinn Mindgroup setur upp sýningar sem eru að takast á við nákvæmlega sömu spurningar en með allt öðrum hætti. Við erum kannski alltaf að takast á við þessa spurningu um hver við erum, en förum kannski aðrar leiðir í dag heldur en við gerðum hér í byrjun aldarinnar,“ segir Magnús.

Hlýða má á viðtalið við Magnús Þór Þorbergsson í heild sinni hér að ofan, en það var flutt í Víðsjá, 8. maí 2017.