Á ekki von á miklum vaxtabreytingum

14.03.2017 - 09:18
Stóra skrefið í afnámi fjármagnshafta var stigið um áramót þegar heimili landsins fengu að kaupa allt að hundrað milljónir króna í gjaldeyri til að fjárfesta í útlöndum, segir Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans. Hann segir að eflaust hefði verið hægt að afnema höftin fyrr en áhættan er talsvert minni nú en áður.

Daníel telur líklegast að ekki verði mikil breyting á stýrivöxtum Seðlabankans á morgun, þrátt fyrir að forvígismenn ríkisstjórnarinnar hafi líst vonum um að afnám hafta leiði til vaxtalækkunar.

„Það eru góð rök fyrir bæði lítils háttar lækkun vaxta og óbreyttum vöxtum. Ég tel að hagvaxtartölurnar sem komu í síðustu viku sem sýndu að það er gríðarlega mikill hagvöxtur og vaxandi hagvöxtur hérna innanlands; vaxandi spenna á vinnumarkaði, atvinnuleysi er svo til horfið og atvinnuþátttakan komin upp fyrir það sem gerðist hæst í síðustu þenslu: það er mjög óvenjulegt að seðlabankar séu að lækka vexti við þess háttar aðstæður,“ sagði Daníel á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.. Á móti kemur að verðbólgan er mjög lág. Hún er innan við tvö prósent og ef við horfum framhjá fasteignamarkaðnum eða húsnæðishluta vísitölunnar er um eitt prósent verðhjöðnun hérna.“