80% af austurhluta Mósúl á valdi hersins

11.01.2017 - 17:45
Mynd með færslu
Íraskir hermenn búnir undir bardaga í Muthana-hverfinu í Mósúl í byrjun vikunnar.  Mynd: EPA
Meira en 80 prósent austurhluta borgarinnar Mósúl er nú á valdi Írakshers. Fréttastofan AFP hafði þetta í dag eftir Sabah al-Noman, foringja í hernum. 

Sókn sérsveita Írakshers inn í austurhluta Mósúl hófst fyrir tæpum þremur mánuðum. Herflugvélar Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra hafa veitt þeim stuðning í baráttunni gegn vígasveitum Íslamska ríkisins og leggja þær áherslu á að ná öllum austurbakka Tígrisfljóts og ráðast síðan á vesturhlutann, sem að sögn sérfræðinga verður mun erfiðara verkefni.

Sveitir hersins komust um helgina að syðstu brúnni í Mósúl yfir Tígris, sem rennur um borgina miðja. Að sögn fréttastofunnar Reuters hafa þær síðastliðinn sólarhring sótt fram gegn vígamönnum í Sadeeq-hverfinu í norðausturhluta borgarinnar, nærri Mósúl-háskóla. Lögð sé mikil áhersla á að ná háskólanum og nærliggjandi byggingum. Harðir bardagar geisi í suðausturhluta borgarinnar og komist herinn hægar yfir.

Ekki er vitað hve mannfall er mikið í bardögunum, en samkvæmt erindreka Sameinuðu þjóðanna hafa hundruð íbúa Mósúl leitað læknisaðstoðar á yfirráðasvæðum Kúrda skammt frá borginni undanfarnar vikur, nærri 700 í síðustu viku og meira en 800 vikuna þar á undan.