8 bestu sjónvarpsþættir síðustu mánaða

30.06.2017 - 09:00
Mynd með færslu
 Mynd: Unsplash  -  Pexels
Aldrei hefur meira verið framleitt af vönduðu leiknu sjónvarpsefni, en margir eiga í vandræðum með að velja á hvað skuli horfa. Hér kemur brot af því besta af nýjum þáttum allt frá síðasta hausti og til dagsins í dag.

Drama

The Crown eru leiknir þættir sem segja sögu Elísabetar 2. Englandsdrottningar frá 1947 fram til 1956 – en áætlað er að rekja ævi og störf drottningarinnar fram til dagsins í dag í sex þáttaröðum. Höfundur þáttanna er Peter Morgan sem skrifaði handritið að myndinni The Queen frá 2006 sem einnig fjallaði um Elísabetu drottningu.

Mynd með færslu
 Mynd: Netflix
Claire Foy í hlutverki sínu sem Elísabet II Englandsdrottning

Þættirnir hafa hlotið einróma lof áhorfenda og gagnrýnenda, en að auki er drottningin sjálf mjög sátt með niðurstöðuna, og finnst þættirnir gefa nokkuð sanna mynd af sögunni. Þegar fyrsta sería kom út sló hún met sem dýrasta sjónvarpsframleiðsla allra tíma.

Hryllingur

The Handmaid‘s Tale er sjónvarpsaðlögun samnefndrar skáldsögu rithöfundarins Margaret Atwood, sem gerist í dystópískri framtíð og fjallar í sem stystu máli um kvennakúgun og misbeitingu valds. Þættirnir þykja stórkostlega vel heppnaðir og fá fullt hús hjá langflestum gagnrýnendum.  Er það ekki síst frammistaða leikkonunnar Elizabeth Moss, gríðarlega fáguð og vel lukkuð sviðsmyndin og hljóðheimur sem lætur engan ósnortinn, en að auki þykir handritið frábært. Til gamans má geta að lag við ljóð Kolbeins Tumasonar Heyr Himnasmiður heyrist á einum stað í þáttunum. Í stuttu máli er The Handmaid‘s Tale sannkallað meistaraverk sem mun lifa áfram í kvikmyndasögunni sem ein af bestu framleiðslum tímabilsins.

Mynd með færslu
 Mynd: MGM
Elizabeth Moss fer með aðalhlutverkið í The Handmaid's Tale

Sjónvarpsþættirnir Tvídrangar eða Twin Peaks komu fyrst út árið 1990, og voru framleiddar tvær þáttaraðir af þessari súrrealísku hryllingsfantasíu David Lynch. Þættirnir slógu í gegn um heim allan, en á dögunum leit þriðja þáttaröðin dagsins ljós, eftir 26 ár í dvala. Eldri þættirnir um Tvídranga mörkuðu vatnaskil þegar þeir voru fyrst sýndir, enda var hinn frumlegi David Lynch óhræddur við að feta ótroðnar slóðir. Um var að ræða tvær þáttaraðir, og kom sú fyrri út árið 1990 og var hugarsmíð Lynch og handritshöfundarins Mark Frost. Önnur þáttaröð kom árið 1991, en þá tók að halla undan fæti. Áhorfið tók dýfu og var útsendingum hætt eftir 22 þætti. Þættirnir hafa þrátt fyrir það öðlast sess meðal áhrifamestu sjónvarpsþátta samtímans.

Mynd með færslu
 Mynd: showtime
Kyle McLachlan snýr aftur í hlutverki lögreglumannsins Dale Cooper

Nýja þáttaröðin þykir sverja sig meira í ætt við önnur og dekkri verk Lynch, og beygja aðeins út af sápuóperustílnum sem einkenndi eldri þættina. Þó ætti serían ekki að valda vonbrigðum, enda er Lynch í brúnni, ekki staðnaður heldur síbreytilegur og ferskur.

Vísindaskáldskapur

The OA eru stórfurðulegir ráðgátuþættir sem í grunninn fjalla um mannránsmál. Þættirnir skauta á milli þess að vera gott ráðgátusjónvarp, með votti af vísindaskáldskap í bland við fangelsisdrama sem er kryddað töfraraunsæi og art-house áhrifum. Kannski má segja að þetta sé svokallaður sálfræðitryllir. Þættirnir eru frábær allegoría fyrir allskonar geðsjúkdóma, kannski er það fyrsta og augljósasta samlíkingin. En annars eru þeir fyrst og fremst frábær og mjög óvenjuleg saga, sem sett er fram á metnaðarfullan og tilraunakenndan hátt.

Mynd með færslu
 Mynd: The OA
Brit Manning í hlutverki sínu í þáttunum The OA, en hún skrifar einnig þættina.

Nú hafa tækniframfarir orðið til þess að sjónvarpsefni sem aldrei hefði átt möguleika í línulegri dagskrá er farið að ryðja sér rúms og bylta landslaginu. Þessir þættir eru fantagott dæmi um það. Hvort sem fólk er ánægt eða ekki, þá er óhætt að fullyrða að þeir teygji sjónvarpsþáttaformið í óvænta átt.

Grín

Sjónvarpsþættirnir Master of None eru höfundarverk Aziz Ansari. Fyrsta sería fór í loftið 2015 og hin seinni kom í apríl 2017. Aziz Ansari hefur notið gríðarlegrar velgengni síðustu ár sem vinsæll gamanleikari með uppistandsferil til hliðar, en að auki gaf hann út bókina Modern Romance sem fjallar um ástina í nútímanum. Það má heita eðlilegt framhald að Aziz tæki skrifin upp á næsta stig með þessum hætti. Hann fékk til liðs við sig hluta af höfundateymi Parks & Recreation, en Master of None byggjast annars að miklu leyti á hans raunverulega sjálfi og öðrum úr leikhópnum, sem flest eru flinkir uppistandarar sjálf.

Mynd með færslu
 Mynd: Netflix
Aziz Ansari og Noël Wells í hlutverkum sínum

Þannig er gaman að sjá öfluga kvenhöfunda og gamanleikara sem virðast ekta, en falla ekki inn í klisjur gamanþátta þar sem karlpersónur eru feitir fyndnir kallar og kvenpersónur bragðlausar plotthjálparhellur í líkama fegurðadrottninga. Allar persónurnar eru ýktar útgáfur af raunverulega leikhópnum, og það skilar sér í flottri útkomu. Sögurnar eru sannar, Aziz Ansari byggir efnið á atvikum úr eigin lífi, erindið er sterkt og á köflum hápólitískt. Önnur sería er að auki ótrúlega fallegur og vel útfærður óður til sjötta og sjöunda áratugarins í mið-Evrópskri kvikmyndagerð.

Spenna

Sjónvarpsþáttaröðin Narcos byggir á raunverulegum atburðum og segir frá ævi og störfum hins kólumbíska Pablo Escobar, frægasta eiturlyfjabaróns heims. Á hátindi ferilsins sá Pablo Escobar um sölu og innflutning á u.þ.b. 80 prósentum af öllu kókaíni sem var í umferð í Bandaríkjunum. Hann varð gríðarlega efnaður á sölunni og er jafnan talinn langríkasti glæpamaður sögunnar. Til marks um það lenti hann í sjöunda sæti á lista Forbes yfir ríkustu menn heims árið 1989. Uppsetningin er löggu- og bófasaga sögð frá sjónarhóli bandarískrar fíkniefnalöggu sem starfar í Kólumbíu. Hann er sendur til Kólumbíu án þess að tala stakt orð í spænsku. Þetta er gott dæmi um þegar raunveruleikinn er fáránlegri en skáldskapur og gefur tóninn fyrir það sem koma skal í seríunni.

NARCOS S01E03 "The Men of Always"
 Mynd: Netflix  -  Narcos

Fantasía

American Gods eða Amerískir guðir eftir breska rithöfundinn Neil Gaiman er margverðlaunuð metsölubók, auk þess að vera ein af kanónum nútíma fantasíuskáldskapar. Hún hefur nú hefur verið sett fram í metnaðarfullri sjónvarpsaðlögun. American Gods var skrifuð árið 2001 og hefur jafnan verið talin til helstu verka Neil Gaiman. Bækur hans hafa fest hann í sessi meðal höfunda eins og George R.R. Martin og jafnvel J.R.R. Tolkien.

Mynd með færslu
 Mynd: http://thetvdb.com/?tab=series&i

Rétt eins og í tilfelli Hringadróttinssögu Tolkien var Neil Gaiman undir sterkum áhrifum frá Íslandi við ritun American Gods, og útlistar hann þau áhrif í heimildarmynd sem tekin var upp hér á landi fyrir nokkrum vikum. American Gods gerist í nútímanum og fjallar um átök milli hinna svokölluðu gömlu guða, en þá er átt við gamla guði úr raunverulegum sagnaarfi -og hinna nýju guða sem eru guðir hins veraldlega; fulltrúar auðs, ímyndar og frægðar. Þættirnir eru líkt og bókin sjálf sneisafullir af áhugaverðum táknmyndum, og eru sannkölluð sælgætisbúð fyrir nörda sem hafa gaman af því að velta sér upp úr dýpri lögum í myndrænni frásögn, og rekja hinar óteljandi vísanir í allskyns goðsagnir.

Mynd með færslu
 Mynd: cc  -  http://thetvdb.com/?tab=series&i
Unglingarnir í norsku þáttunum SKAM

Unglingaþættir

Skam fjalla um hóp ungs fólks sem ganga í Hartvig Nissen framhaldsskólann í vestur Osló, og fylgjast áhorfendur með þeirra hversdagslegu sorgum og sigrum. Hafa þættirnir verið aðgengilegir á vef Norska ríkisútvarpsins NRK, ásamt fjölbreyttu aukaefni af samfélagsmiðlum sem tengjast sögunni og persónum þáttanna, en einnig hefur RÚV sýnt þættina frá upphafi með íslenskum texta. Velgengni þáttanna hefur farið langt fram úr björtustu vonum og hafa þeir jafnvel sankað að sér stórum aðdáendahóp í Kína. Eitt helsta einkenni þáttanna er hreinskilni í frásögn og framsetningu, og farið er í saumana á viðkvæmum málefnum í gegnum krafmikla sögu og vönduð persónuskrif. Þá hafa þættirnir hlotið mikið lof meðal aðdáenda og menningarrýna víða um heim fyrir vandaða framsetningu á málefnum samkynhneigðra unglinga, auk þess sem ein aðalpersóna þáttanna er múslími og þykir sú persóna vinna gegn neikvæðum staðalmyndum af múslímum. Íslendingar hafa verið mjög hrifnir af þáttunum og hefur meðal annars verið stofnaður sérstakur klúbbur utan um áhugann.

Undirrituð er sjónvarpsrýnir Lestarinnar á Rás 1 og hefur horft á hátt í 60 þáttaseríur síðan í ágúst 2016. Þessi samantekt er brot af því besta.