700 ferðamönnum bjargað frá gróðureldum

13.07.2017 - 03:11
epa06082695 A view of smoke and flames from wildfires affecting an area around the Sicilian city of Messina, southern Italy, 11 July 2017 (issued 12 July 2017). Canadair aircraft from the Air Force, coordinated by the Civil Protection, responded to
Gróðureldar brenna víða á Suður-Ítalíu þessa dagana. Þessi mynd er tekin í útjaðri sikileysku borgarinnar Messina.  Mynd: EPA  -  ANSA
Um 700 ferðamönnum var í gær forðað sjóleiðis frá gróðureldum á Sikiley. Mikil hitabylgja með tilheyrandi þurrkum plagar nú Suður-Ítalíu og þar loga víða skógar- og gróðureldar sem illa gengur að hemja. Þegar eldar tóku að ógna strandbænum Calampiso, skammt vestur af Palermo á Sikiley í gær, biðluðu yfirvöld til sjómanna og bátseigenda að hjálpa við brottflutning dvalargesta og heimafólks.

Matteo Rizzo, bæjarstjóri í nágrannabænum San Vito Lo Capo, lét boð út ganga á Facebook, þar sem hann hvatti alla sem ættu trausta og áreiðanlega báta að bregðast við skjótt því mikil hætta vofði yfir öllum í Calampiso. Fólkið var flutt til San Vito og fór bæjarstjórinn Rizzo fram á það við sitt fólk að það veitti aðkomufólkinu alla þá aðstoð sem það gæti.

Enginn slasaðist vegna eldanna í og við Calampiso og má það kallast mesta mildi, því fólk átti bókstaflega fótum fjör að launa þegar eldurinn læsti sig í húsin í bænum. Í ítalska blaðinu La Stampa er haft eftir ferðakonu að hún og aðrir gestir hafi flúið á sundfötum og ilskóm einum fata. „Íbúðin okkar stóð í ljósum logum allt í kringum okkur. Ég tók dóttur mína og hraðaði mér niður á strönd. Þeir skipuðu okkur um borð í báta sem sigla meðfram Zingaro-ströndinni. Fyrst konur og börn, svo hinir.“

Í frétt BBC segir að hitinn á Suður-Ítalíu hafi ítrekað farið yfir 40 gráður að undanförnu og úrkoma verið hverfandi síðustu mánuði. Miklir eldar loga meðal annars í hlíðum Vesúvíusar í Campania-héraði, en í allt loguðu gróðureldar á 288 stöðum á Ítalíu í gær, miðvikudag. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir vegna þurrka í Parma- og Piacenza-héruðum í Norður-Ítalíu, og nú er mikill þrýstingur á stjórnvöld að lýsa einnig yfir neyðarástandi í þeim héruðum í suðurhluta landsins, sem hvað verst verða úti í þurrkum og gróðureldum sumarsins. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV