670 milljóna króna tap í rekstri Hörpu

12.09.2017 - 17:37
Mynd með færslu
 Mynd: CC0  -  Pixabay
Kostnaður við rekstur Hörpu hefur aukist umtalsvert umfram tekjur miðað við ársuppgjör ársins 2016, sem kynnt var á framhaldsaðalfundi í gær. Taprekstur samstæðunnar á árinu nam um 670 milljónum króna.

Þetta kom fram á framhaldsaðalfundi Hörpu í gær fyrir árið 2016. Tekjur af starfsemi Hörpu jukust um 215 milljónir króna milli ára eða um tæpt 21 prósent. Aukning í tekjum er að mestu rakin til aukinnar útleigu vegna tónlistarviðburða, ráðstefna og fundahalds sem hækkaði tekjur um 180 milljónir króna milli ára og voru þær hátt í 780 milljónir króna árið 2016. Með sérstöku framlagi eigenda til rekstrar, sem nam þrettán prósentum af tekjum, voru heildartekjur samstæðunnar alls 1.472 milljónir króna. Rekstrargjöld jukust á sama tíma um 319 milljónir. Þar af hækkaði húsnæðiskostnaður um 88 milljónir króna. Launakostnaður jókst um 50 milljónir, eða ellefu prósent milli ára.

Mesta aukning kostnaðar vegna aðkeyptrar þjónustu

Í tilkynningu frá Hörpu kemur fram að mest hafi kostnaður aukist í aðkeyptri þjónustu eða um 151 milljón króna milli ára. Þar vegi þyngst kostnaður vegna viðburða í skammtímaleigu. Í tilkynningunni er sérstaklega tekið fram að ekki hafi enn verið fundið heilbrigðara jafnvægi milli tekna og gjalda í þessari kjarnastarfsemi Hörpu. 

Í tilkynningunni kemur fram að afkoma Hörpu hafi því versnað milli ára og tap fyrir afskriftir og fjármagnsliði samstæðunnar hafi verið tæpar 294 milljónir króna árið 2016, en 210 milljónir árið 2015. Í skýrslu stjórnar kemur fram að taprekstur samstæðunnar hafi verið um 670 milljónir króna á árinu 2016. Afkoman versnaði um sem nemur 129 milljónum króna á milli ára. „Þetta eru gríðarleg vonbrigði og skrifast á nokkra þætti í móðurfélaginu, meðal annars háan útleigukostnað, háan rekstrarkostnað fasteignarinnar og alltof há fasteignagjöld,“ segir Guðfinna Bjarnadóttir, fráfarandi stjórnarformaður, í tilkynningunni. 
Eignir samstæðunnar stóðu í árslok í rúmum 20 milljörðum. 

Nýtt fasteignamat unnið 

Enn er ekki komin niðurstaða um hversu há fasteignagjöld Harpa þurfi að greiða. Hæstiréttur dæmdi um fasteignagjöldin í febrúar í fyrra og segir í tilkynningunni að vonast hafi verið til að niðurstaða yrði til þess að lækka fasteignagjöldin umtalsvert. Þjóðskrá var á annarri skoðun og sagði í lok árs í fyrra að niðurstaðan myndi standa. Stjórn Hörpu áfrýjaði niðurstöðunni til yfirfasteignamatsnefndar í janúar sem skilaði sínum úrskurði í lok ágúst þar sem fasteignamatið frá árinu 2016 var fellt úr gildi og Þjóðskrá var falið að vinna nýtt mat. Niðurstaða liggur ekki fyrir, segir í tilkynningunni frá Hörpu. 

Ný stjórn kjörin 

Breytingar urðu á stjórn Hörpu á fundinum í gær. Guðfinna S. Bjarnadóttir, Ásta Möller og Kjartan Örn Ólafsson létu af störfum. Ný stjórn var kjörin og í henni sitja Arna Schram, Árni Geir Pálsson, Birna Hafstein, Vilhjálmur Egilsson og Þórður Sverrisson sem tekur við sem formaður stjórnar.  
 
 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV