6.000 bjargað úr Miðjarðarhafinu um helgina

07.05.2017 - 00:48
Mynd með færslu
Frá björgunaraðgerðum á Miðjarðarhafi í október.  Mynd: EPA
Um sex þúsund flóttamönnum var bjargað úr Miðjarðarhafinu í gær og í dag að sögn ítölsku strandgæslunnar. Ítalski sjóherinn, strandgæslan, landamærastofnun Evrópusambandsins, Frontex, og fjöldi sjálfboðasamtaka tók þátt í björgunaraðgerðum í dag þar sem um þrjú þúsund var bjargað.

Að sögn AFP fréttaveitunnar voru flóttamennirnir fluttir til Ítalíu, þangað sem stefnan var sett í upphafi ferðar þeirra. Undanfarna mánuði hafa Ítalía og Líbía bætt samstarf sitt við að reyna að fækka þeim flóttamönnum sem hætta lífi sínu við að reyna að komast yfir Miðjarðarhafið á slæmum fararkosti. Ítölsk stjórnvöld lofuðu því að færa Líbíu liðsafla við strandgæslu auk tæknilegrar aðstoðar.

Um 37 þúsund flóttamenn hafa farið yfir Miðjarðarhafið frá Líbíu til Ítalíu það sem af er ári. Það eru um 30 prósentum fleiri en á sama tíma í fyrra. Yfir 4.500 drukknuðu eða er saknað eftir ferðalögin í fyrra, en um eitt þúsund hafa hlotið sömu örlög í ár.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV