6 fórust í sprengingum í skipasmíðastöðvum

18.05.2017 - 03:04
Mynd með færslu
Af twitter-straumi webinfomal. Vitað var um 4 látna þegar þessi frétt birtist en síðan hefur fórnarlömbunum fjölgað um tvö hið minnsta.  Mynd: NN  -  Twitter
Minnst sex fórust og á þriðja tug slösuðust í sprengingum sem urðu í tveimur skipasmíðastöðvum í borginni Cartagena í Kólumbíu í gær. Orsök sprenginganna er óljós en lögregla upplýsir að unnið sé að rannsókn á því, hvort um slys eða hryðjuverk hafi verið að ræða. AFP-fréttastofan hefur eftir talskonu slökkviliðs Cartagena að þrjár sprengingar hafi orðið í tveimur skipasmíðastöðvum. Tvær sprengingar urðu í bandarísku skipasmiðjunni Astivik en sú þriðja í smiðju kólumbísku skipasmiðanna Cotecmar.

Sem fyrr segir er enn óljóst hvað olli sprengingunum en getgátur eru uppi um að neisti hafi komist í gas, að minnsta kosti í einu tilfelli. Haft er eftir stjórnarformanni Cotecmar að sprengingin þar hafi orðið um borð í tankskipi sem var í slipp vegna viðhalds. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV