58 taldir af eftir eldsvoðann í Lundúnum

17.06.2017 - 16:10
epa06033473 People look over floral tributes close to Grenfell Tower, a 24-storey apartment block in North Kensington, London, Britain, 17 June 2017. Search and Rescue efforts are continuing to sift through the burnt out remains of the tower. At least 58
 Mynd: EPA
Lögreglan í Lundúnum telur að 58 hafi farist í eldsvoðanum í Grenfell Tower háhýsinu á miðvikudag. Sextán lík hafa verið fjarlægð úr háhýsinu og búið er að staðfesta andlát 30 íbúa. Þetta tilkynnti Stuart Cundy lögreglustjóri síðdegis en sagði ekki útilokað að fleiri hefðu farist. Hann sagði að áhersla lögreglu beindist að þeim sem vitað væri að voru í háhýsinu þegar það brann. Þó kunni að vera að einhverjir hafi verið gestkomandi án þess að vitað sé af því.

Lengi vel gekk erfiðlega að komast á efstu hæðir háhýsisins en í dag komust rannsóknarmenn upp á efstu hæð hússins, sem er 24 hæðir. Þá fór fram fyrsta leit að líkamsleifum þeirra sem fórust í eldsvoðanum. Mun ítarlegri leit á þó eftir að fara fram. 

Miklar skemmdir urðu á turninum og gerir það allt leitar- og rannsóknarstarf erfiðara en annars væri. 

Cundy sagði að lögregla myndi rannsaka alla þætti brunans, þar á meðal framkvæmdir við það í fyrra. Hann sagði að fólk yrði sótt til saka ef sönnunargögn gæfu tilefni til þess. Rannsakað er hvort eitthvert glæpsamlegt athæfi hafi átt sér stað.