5300 ára gamalt morð að skýrast

05.06.2017 - 15:41
I06 - 20000925 - BOLZANO, ITALY : (FILES) Undated file picture shows Italian scientists preparing the glacier-mumie, known as "Oetzi", in a room of a museum in Bolzano, northern Italy. "Oetzi" was defrosted on Monday, 25 September 2000
 Mynd: epa  -  ANSA_FILES
Línur eru að skýrast í óleystu morðmáli í ítölsku ölpunum. Mynd er að komast á atburðarás sem endaði með því að Oetzi, oft nefndur ísmaðurinn, var myrtur með örvarskoti í bakið.

Ótrúlega vel varðveitt lík

Sérfræðingar hafa í áraraðir velt fyrir sér þessari morðgátu, en nú virðist sem Alexander Horn rannsóknarlögreglumaður frá München í Þýskalandi, hafi áttað sig á aðdraganda árásarinnar og ástæðu morðsins. Morðinginn er hins vegar ófundinn og finnst sennilega aldrei.  Oetzi var nefnilega myrtur fyrir 5300 árum á jöklaslóð í Suður-Týrol. Líkið varðveittist í þúsundir ára í sífreranum og fannst ekki fyrr en árið 1991. Það er með elstu og best varðveittu múmíum jarðar.

Þýskur lögreglumaður fenginn í málið

Líkið er til sýnis í Fornleifasafninu í Suður-Týrol á Ítalíu og hefur verið rannsakað ítarlega sl. 25 ár. Fyrir 15 árum fannst örvaroddur í öxl hans og þá vaknaði grunur um að Oetzi hefði verið myrtur. Á vef BBC segir að Angelika Fleckinger, forstöðukona Fornleifasafnsins í Suður Týrol, hafi síðan leitað til Horn, sem er sérfræðingur í óleystum eldri sakamálum, til að rannsaka málið. Sakamálin sem Horn hefur unnið að eru yfirleitt ekki eldri en 20 til 30 ára, þannig að hann var ekki ýkja vongóður um að geta varpað einhverju ljósi á 5300 ára gamalt mál. En þar skjátlaðist honum. Líkið af Oetzi var svo vel varðveitt að Horn féll í stafi. Ítarlegar rannsóknir á líkinu hafa leitt í ljós að Oetzi hafði borðað staðgóða máltíð skömmu fyrir dauða sinn og hann bar sár á hægri hendi sem hann hafði fengið einum til tveimur dögum fyrr, eins og hann hefði varist hnífaárás.

Skotinn af 30 metra færi

Horn fann líka út að Oetzi hefði verið skotinn af u.þ.b. 30 metra færi. Horn hefur því sett fram eftirfarandi tilgátu: Handarsár Oetzis bendir til þess að hann hafi lent í átökum sem hann hefur haft betur í þar sem engin önnur merki eru um að hann hafi særst annars staðar á líkamanum. Átökin hafi átt sér stað í byggð. Oetzi hafi síðan haldið á fjöll. Um það bil einum og hálfum tíma fyrir morðið hafi hann hvílst og tekið hressilega til matar. Það bendi ekki til þess að hann hafi verið á hraðferð eða verið á flótta. Einhver hafi elt Oetzi og skotið hann á færi þar sem morðinginn hafi ekki treyst sér til að hitta hann augliti til auglits.

Morðið ennþá óupplýst

En hver var ástæða morðsins? Alexander Horn segir að ástæðan sé sennilega persónuleg, hatur, afbrýðisemi eða hefnd. Þegar lík Oetzi fannst fyrir 26 árum þá var hjá honum koparexi og annar verðmætur búnaður, sem morðinginn hafði greinilega ekki áhuga á. Angelika Fleckinger er himinlifandi með vinnu Alexanders Horn, en Horn er ekki fyllilega ánægður sjálfur. Hann segir að morðinginn hafi komist upp með glæpinn  og sem yfirmaður rannsóknarinnar sé hann ekki ánægður með það. Morðið sé með öðrum orðum óupplýst.

 

 

Mynd með færslu
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV