500 umsóknir um hæli á fyrri hluta árs

06.07.2017 - 12:34
Hælisleitendur á gangi að Víðinesi.
Hælisleitendur á gangi að Víðinesi.  Mynd: RÚV
Eitthundrað og þrjátíu sóttu um hæli á Íslandi í júní. Það sem af er ári hafa fimm hundruð sótt um hæli hér á landi. Það eru áttatíu prósent fleiri umsóknir en á sama tíma í fyrra. Ef fram fer sem horfir gætu umsóknir um hæli á Íslandi orðið tvöþúsund í ár - og möguleg fleiri. Þetta kemur fram á vef Útlendingastofnunar. Langflestar hælisumsóknir hafa borist seinni hluta árs. Þannig sóttu 275 um hæli á þessum tíma í fyrra en um þrefalt fleiri sóttu um hæli seinni sex mánuðina.

 

Umsóknum um hæli á Íslandi hefur fjölgað mikið síðustu tvö ár. Árið 2015 voru þær 355 og í fyrra voru þær 1.132. Flestar hælisumsóknir í júní voru frá Albönum og næstflestar frá ríkisborgurum Georgíu. Útlendingastofnun lauk níutíu og þremur málum í júní.

Níu einstaklingum var veitt vernd á Íslandi. Af þeim voru þrír Afganir og þrír Sýrlendingar. Flestum sem var synjað um vernd komu frá Albaníu og Makedóníu. Stoðdeild Ríkislögreglustjóra flutti fjörtíu og tvo hælisleitendur frá landinu í júní og tuttugu og fimm yfirgáfu landið með stuðningi Útlendingastofnunar.

 

Gunnar Dofri Ólafsson