500 milljarðar í þjóðarsjóði eftir 20 ár

27.04.2017 - 17:51
Þjóðarsjóðurinn gæti numið rúmum 500 milljörðum eftir 20 ár. Gert er ráð fyrir að frá árinu 2019 eða 20 renni arðgreiðslur Landsvirkjunar í sjóðinn. Fjármálaráðherra segir að sjóðurinn gæti nýst sem sveiflujöfnun í hagkerfinu og hann gæti líka verið trygging gegn alvarlegri náttúrvá.

Það virðist vera orðin venja að fjármálaráðherrar minnist á stofnun sjóðs um arð af orkuauðlindunum á ársfundum Landsvirkjunar. Bjarni Benediktsson fyrrverandi fjármálaráðherra hefur gert það í tvígang, fyrst 2015 og svo í fyrra. Arftaki hans, Benedikt Jóhannesson, hélt uppteknum hætti og minntist á sjóðinn á ársfundi Landsvirkjunar í gær. Bjarni sagði þetta á ársfundinum 2015.

„Ég tel tímabært að við Íslendingar stofnum sérstakan orkuauðlindasjóð, fullveldissjóð okkar Íslendinga, sem í myndi renna allur arður af nýtingu orkuauðlindanna," segði Bjarni Benediktsson.

Þarna var sjóðurinn nefndur orkuauðlindasjóður eða stöðugleikasjóður.  Ýmis önnur nöfn hafa verið nefnd, þjóðhagsvarúðarsjóður, þjóðarsjóður og í fréttum okkar í gær var sjóðurinn kallaður hamfarasjóður. Sjálfsagt orðið tímabært að hann fái endanlegt nafn því nú virðist hilla undir að hann verði stofnaður. Það viðist líka aðeins vera á reiki til hvaða verkefna peningar úr sjóðunum eiga að fara. Bjarni talaði  um 2015 að sjóðurinn yrði notaður til að greiða niður skuldir ríkisins og styðja við fjármögnun mikilvægrar innviða.

„Á borð við framkvæmdir eða uppbyggingu í menntakerfinu en það þyrfti að afmarka slík verkefni með skýrum hætti bæði hvað varðar umfang og tíma," sagði Bjarni.

Hann sagði líka að nauðsynlegt væri að hugsa til langs tíma. Sjóðurinn gæti orðið mikilvægt hagstjórnartæki. Tryggð yrði að lagt yrði til hliðar í uppsveiflu og að sjóðurinn væri til staðar til að blása lífi í hagkerfið í niðursveiflu. Það hefur verið unnið að stofnun þessa sjóðs undanfarin ár og meðal annars fundað með stjórnendum olíusjóðsins í Noregi sem hefur blásið út frá því að hann var stofnaður 1990. 

Þúsund milljarðar

Markaðsvirði sjóðsins í dag er um 8002 milljarðar norskra króna sem lætur nærri að vera 100 þúsund milljarðar íslenskra króna. 2001 var andvirði  hans 387 milljarðar norskra króna en sem hefur aukist um nærri 2000% fram til dagsins í dag eða 20 faldast. Þetta eru stjarnfræðilegar tölur.  Tekjur ríkisins af olíunni renna í sjóðinn og Norðmenn hafa verið sparir á að nota peninga úr sjóðnum til að fjárfesta í innviðum. Sjóðurinn var stofnaður til að standa straum af aukum lífeyrisgreiðslum og til að taka á málum þegar olíulindirnar tæmast. Sjóðurinn í Noregi er í daglegu tali kallaður Olíusjóðurinn en heitir í raun og veru lífeyrissjóðurinn. Sjóðurinn er með fjárfestingar í 77 löndum, hann á hlutabréf í 8.985 fyrirtækjum, 1,3% af öllum skráðum hlutabréfum í heiminum og 2,3% af skráðum hlutabréfum í Evrópu.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jens Stoltenberg

Fyrir kynslóðir framtíðarinnar

En Norðmenn hafa haldið fast um pyngjuna. Jens Stoltenberg lýsti hlutverki sjóðsins svona þegar hann var forsætisráðherra Noregs. Hann sagði að sjóðurinn hefði verið stofnaður 1990 og menn hefðu þá ekki almennilega vitað í hvað stefndi . Það hefði ekki verið fyrr en 1996 sem nokkrar milljónir byrjuðu komu í sjóðinn.  Hann sagði að meginmarkmiðin með sjóðnum væri tvö.

„Það fyrra er að tryggja til langframa góða afvöxtun af þeim miklu tekjum sem við fáum af olíunni og hitt er að tryggja stöðugleika í norsku efnahagslífi. Olían og gasið sem við höfum fundið tilheyrir allri þjóðinni og á ekki að koma einn kynslóð til góða heldur mörgum kynslóðum í framtíðinni. Hitt markmiðið er að við höfum séð að það fer illa með efnahag þjóða þegar peningum er eytt of hratt. Það hefur áhrif á verðlag, verðbólgu og vexti. Hjól efnahagslífsins fara að snúast of hratt ef peningum er eytt of hratt. Þess vegna verðum við að fara varlega í eyðslunni,“ sagði Jens Stoltenberg.

500 milljarðar eftir 20 ár

Og nú eru horfur á að við fáum okkar olíusjóð enda kveðið á um stofnun hans í stjórnarsáttmálanum.

Stofna skal stöðugleikasjóð sem haldi utan um arð af orkuauðlindum í eigu ríkissjóðs, tryggi komandi kynslóðum  hlutdeild  í  ávinningi  af  sameiginlegum  auðlindum  og  geti  verið  sveiflujafnandi  fyrir efnahagslífið.  segir  í stjórnarsáttmálaunum.

Benedikt Jóhannesson  kýs að kalla sjóðinn þjóðarsjóð. Hann segir að þegar hafi talsverður undirbúningur farið fram og  hann hafi skipað nýjan vinnuhóp til að vinna að framgangi málsins. Allt snýst þetta um að Landsvirkjun fari brátt að greiða umtalsverðar arðgreiðslur og hugsunin er að þær renni í sjóðinn. Og það á ekki að ausa peningum í allar átti. Norski hugsunarhátturinn á að ráða för. Benedikt sagði að sjóðurinn gæti nýst sem sveiflujöfnun í hagkerfinu.

„Trygging gegn alvarlegri náttúruvá, kynslóðajöfnun eða stuðningur við nýsköpun og þróun. Allt eru þetta dæmi um not sem hægt er að hugsa sér. Sum þeirra gætu gengið saman en önnur stangast hugsanlega á. Ég er þeirrar skoðunar að trygging gegn stór áföllum sé einna efst á blaði. Slík stóráföll geta verið Kötlugos, skæður sjúkdómsfaraldur sem núverandi lyf vinna ekki á eða vistkerfisbrestur á fiskimiðum. Þá gæti slíkur sjóður lagst á árarnar ef þarf að fara í stórfelldar fjárfestingar þar sem fjárfestingarsvigrúm reglulegs rekstrar ríkisins dugar ekki til,“ sagði Benedikt.

Gert er ráð fyrir að arðgreiðslur Landsvirkjunar nemi innan fárra ára 5 til 20 milljörðum. Í máli ráðherra kom fram að sjóðurinn yrði stofnaður 2019 eða 20. Ef miðað væri við að árlega rynnu 15 milljarðar í sjóðinn með hóflegri ávöxtun gæti sjóðurinn numið 7 prósentum af vergir landsframleiðslu og eftir 20 ár um 20 prósentum. Miða við áætlað landsframleiðslu á þessu ári, sem er 2535 milljarðar, gætu verið komnir 177 milljarðar í sjóðinn eftir 10 ár og rúmir 500 milljarðar 20 árum eftir stofnun hans.

 

Mynd með færslu
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi