5 bækur sem þú ættir að lesa í maí

Bókmenntir
 · 
Bækur sem þú ættir að lesa
 · 
Við mælum með
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
 Mynd: -

5 bækur sem þú ættir að lesa í maí

Bókmenntir
 · 
Bækur sem þú ættir að lesa
 · 
Við mælum með
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
06.05.2017 - 09:26.Vefritstjórn
Í hverjum mánuði leggjum við til nokkrar bækur, sem við erum að lesa, höfum lesið eða klæjar í fingurna eftir að byrja á. Hér eru 5 bækur sem myndu sóma sér vel á hvaða náttborði sem er.

Velkomin til Ameríku

eftir Lindu Boström Knausgård 

Mynd með færslu
 Mynd: cc

Halla Þórlaug Óskarsdóttir – dagskrárgerðarmaður, Víðsjá:
Stórkostleg skáldsaga úr smiðju Lindu Boström Knausgård. Aðalpersónan, unglingsstúlka sem er kjörþögul, trúir því að hún hafi valdið dauða föður síns með því að biðja til Guðs. Hún og Guð eru saman í liði og hún fylgist með lífinu einhvern veginn utan frá, þar sem hún hvorki talar né skrifar. Það gerir söguna líka svo áhugaverða, hvernig kemur hún þessum hugsunum frá sér? Hvernig höfum við aðgang að þeim? Ljúfsár bók sem er einhvern veginn svo sönn. Örstutt og fljótlesin, skemmtilega ólík doðröntum fyrrverandi eiginmanns Knausgårds, hins norska Karls Ove.


The Establishment

Eftir Owen Jones

Mynd með færslu
 Mynd: cc

Guðni Tómasson – dagskrárgerðarmaður, Víðsjá:
Höfundurinn Owen Jones er umdeildur blaðamaður og pistlahöfundur í Bretlandi. Í The Establishment veitir hann forvitnilega innsýn í bresk stjórnmál allt frá tímum Margrétar Tatcher og jafnvel fyrr. Wilson teiknar upp mynd þar sem hugmyndafræðingar og fræðastofnanir, fjölmiðlar, lögreglan, stjórnmálaflokkar og þingmenn, meðal margra annarra, viðhalda og styrkja núverandi kerfi þar sem þeir ríku verða ríkari. Á meðan eru lægri stéttir útmálaðar sem óvinir samfélagsins, einhvers konar afætur, og sameign samfélagsins er bútuð niður og seld. Í aðdraganda kosninga í Bretlandi gefur bókin innsýn í samtryggingu og þöggun á síðustu árum, en efni hennar er einnig ríkulegt heilafóður til að velta vöngum yfir stöðunni í öðrum löndum.


Stofuhiti

Eftir Berg Ebba Benediktsson

Mynd með færslu
 Mynd: cc

Davíð Kjartan Gestsson – ritstjóri menningarefnis RÚV.is:
Ný bók eftir uppistandarann, pistlahöfundinn og skáldið Berg Ebba Benediktsson kom út fyrir helgi, Stofuhiti – ritgerð um samtímann. Hún er frek á athyglina þessi bók, á litin eins og öryggisvesti og með mynd af höfundinum á miðri kápunni. Bergur hefur sýnt það í gegnum tíðina í pistlum sínum að hann hefur skarpa sýn á samtímann. Aukið bolrými bókarinnar gerir honum gott og það er auðvelt að hrífast með í áköfum vangaveltum um fagurfræði, upplýsingabyltinguna og Instagram-filtera. Lagalistinn er líka góður.


Lincoln in the Bardo

Eftir George Saunders

Mynd með færslu
 Mynd: cc

Halla Oddný Magnúsdóttir – dagskrárgerðarmaður, Menningin:
Ég hef verið aðdáandi smásagna George Saunders í mörg ár og tók því fagnandi fyrstu skáldsögu hans, Lincoln in the Bardo, sem kom út fyrr á árinu. Eins og svo oft í sögum Saunders eru forsendur verksins óvenjulegar – bókin fjallar um sonarmissi Abrahams Lincolns, Bandaríkjaforseta, og gerist að mestu í grafhýsinu þar sem líki sonarins er komið fyrir, einhvers konar fordyri dauðans, sem kaþólskir menn myndu kalla limbó en kallast bardo í tíbetskum búddisma. Þar tala dauðar sálir hver ofan í aðra, auk þess sem hinar og þessar ritaðar heimildir koma við sögu og mynda margradda heild sem einkennist af mikilli formdirfsku. Stundum er erfitt að henda reiður á öllu persónugalleríinu, og því er óhætt að mæla með hljóðbókinni sem gefin var út samhliða, þar sem ekki færri en 164 lesarar blása lífi í hina dauðu.


SPQR: A History of Ancient Rome

Mynd með færslu
 Mynd: cc

Bergsteinn Sigurðsson – ritstjóri Menningarinnar:
Breski sagnfræðingurinn Mary Beard reifar margslungna og oft mótsagnakennda sögu Rómarveldis á fjölbreyttan og lifandi hátt; sögu sem á köflum rímar óhugnanlega vel við stöðu og þróun mála á okkar tímum. 

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

6 bækur sem þú ættir að lesa í apríl

Bókmenntir

6 bækur sem þú ættir að lesa í mars