42 fallnir í Venesúela

17.05.2017 - 00:43
epa05966861 A protester simulates tears with paint in the colors of the Venezuelan flag during the so-called 'Gran Planton Nacional' (Big National Stand) summoned by the opposition in Caracas, Venezuela, 15 May 2017. Hundreds of Venezuelans are
 Mynd: EPA  -  EFE
17 ára piltur og tveir karlmenn á fertugsaldri voru skotnir til bana þegar þeir tóku þátt í mótmælum gegn Nicolas Maduro og stjórn hans í Venesúela í gær og dag. Þar með hafa 42 týnt lífi í atburðum tengdum þessari nýjustu mótmælabylgju, sem staðið hefur ríflega hálfan annan mánuð. Róstur síðustu vikna eru orðnar þær mannskæðustu í landinu síðan 2014 þegar 43 létust í tengslum við hörð mótmæli gegn stjórnvöldum, langflestir úr röðum mótmælenda, rétt eins og nú.

Mótmælendur gripu til grjótkasts og bensínsprengja í mótmælum gærdagsins og lögregla svaraði með táragasi og skothríð. 

Stjórnarandstaðan, sem er með meirihluta á þingi, krefst þess að forsetakosningum verði flýtt. Maduro segir að kosið verði síðla árs 2018, eins og lög geri ráð fyrir, en þvertekur fyrir að flýta kosningunum. Hann sakar stjórnarandstöðuna um að standa fyrir vopnaðri uppreisn gegn sér og stjórn sinni, með stuðningi Bandaríkjanna. Forsetinn framlengdi nýverið gildistíma neyðarlaga, sem hafa verið í gildi frá því í janúar 2016 og gefa honum mun rýmri valdheimildir en ella. 

Staðan í Venesúela verður rædd á lokuðum fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna á morgun, miðvikudag.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV