36% Bandaríkjamanna styðja Donald Trump

16.07.2017 - 19:59
epaselect epa06086397 US President Donald J. Trump attends the traditional military parade as part of the Bastille Day celebrations in Paris, France, 14 July 2017. The Bastille Day, the French National Day, is held annually on 14 July to commemorate the
 Mynd: EPA
Donald Trump er óvinsælasti forseti Bandaríkjanna í sjötíu ár, ef marka má fréttaflutning ABC-fréttastofunnar. Aðeins þrjátíu og sex prósent Bandaríkjamanna segjast styðja hann nú þegar sex mánuðir eru liðnir frá embættistöku forsetans, samkvæmt könnun ABC og Washington Post. Stuðningur við Trump lækkar um sex prósentustig frá því að hundrað dagar voru liðnir frá embættistöku í apríl.

Í sömu könnun telja þrjátíu og átta prósent þátttakenda að Trump hafi náð marktækum árangri í sínum helstu kosningamálum, tveir þriðju treysta honum ekki til að semja við aðra þjóðarleiðtoga fyrir hönd Bandaríkjanna og helmingur þátttakenda telur að bandarísk forysta í heimsmálum hafi veikst á hans vakt. Demókratar koma líka illa út úr könnuninni en aðeins þrjátíu og sjö prósent þátttakenda segja að flokkurinn standi raunverulega með einhverri stefnu. Naumur meirihluti segir hann hinsvegar einungis vera á móti Trump og ekki hafa neitt fleira til málanna að leggja.

Kom syni sínum til varnar á Twitter

Donald Trump finnur könnun ABC og Washington Post allt til foráttu. Í færslu á Twitter segir hann að hún sé afar ónákvæm og tekur fram að stuðningur fjörutíu prósenta landsmanna sé ekki slæmur árangur.

Samkvæmt umfjöllun New York Times gekk Trump nýverið í gegnum eitt erfiðasta tímabil forsetagöngu sinnar. Er það vegna hneykslis í kringum fund sem sonur hans sótti með rússneskum lögfræðingi í júní í fyrra. Sextíu og þrjú prósent þátttakenda í könnun ABC og Washington Post sögðu að það hafi verið óviðeigandi af hálfu Trump yngri að sækja fundinn. Trump eldri kom syni sínum til varnar á Twitter í morgun en réðist gegn bandarískum fjölmiðlum og Hillary Clinton mótframbjóðanda sínum. Hann var staddur á golfmóti þegar hann birti færslur sínar á Twitter. 

Sjá frétt ABC hér.

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV