30 ára fangelsi fyrir særingarmeðferð

epa05953933 The evangelical pastor Juan Gregorio Rocha Romero (L), accused of murder and simple abduction, attends court in Managua, Nicaragua, 09 May 2017. The pastor and four congregants were accused of throwing Vilma Trujillo Garcia into a bonfire
Juan Rocha leiddur af lögreglumanni.  Mynd: EPA  -  EFE
Prestur í Níkaragva var dæmdur í 30 ára fangelsi fyrir særingu sem dró konu til dauða. Auk prestins voru fjórir úr söfnuði hans dæmdir í 30 ára fangelsi, sem er þyngsta refsing sem hægt er að fá í landinu.

Juan Rocha, 23 ára gamall prestur í þorpinu El Cortezal í norðvestanverðu Níkaragva, framkvæmdi særingu á Vilmu Trujillo, 25 ára gamalli tveggja barna móður. Hún var bundin niður og neitað um mat og drykk í heila viku um miðjan febrúar í kirkju Rocha. Að sveltinu loknu var henni kastað nakinni á bálköst. AFP fréttastofan greinir frá því að ættingjar hennar hafi bjargað henni af bálinu og komið henni undir læknishendur. Eftir vikudvöl á sjúkrahúsi lést Trujillo af brunasárum.

Rocha og safnaðarmeðlimirnir sögðust fyrir dómi hafa verið sannfærðir um að Trujillo hafi verið andsetin af kölska sjálfum. Þeir neituðu allir að hafa átt þátt í láti hennar. Þeir voru allir dæmdir sekir fyrir morð, auk þess sem fjórir þeirra voru einnig dæmdir sekir fyrir að halda henni nauðugri. Auk fangelsisvistarinnar voru allir mennirnir sektaðir um jafnvirði rúmlega 55 þúsund króna. Það er frekar há upphæð í Níkaragva þar sem meðallaun eru um 40 þúsund krónur á mánuði.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV