25 létust í rútuslysi í Kongó

11.09.2017 - 03:36
Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
25 dóu og 57 slösuðust, flestir alvarlega, þegar rúta valt á aðalþjóðveginum í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó á sunnudag. Slysið varð á þjóðvegi 1, skammt frá bænum Kikwit í suðausturhluta landsins, en rútan var á leið þaðan til höfuðborgarinnar Kinshasa. Hinir slösuð voru fluttir á sjúkrahús í Kikwit til aðhlynningar, en læknirinn Guy Kilundu sagði tíðindamanni AFP-fréttastofunnar að spítalinn væri illa undir það búinn að taka á móti svo mörgum illa slösuðum sjúklingum.

Lyfjabúr sjúkrahússins væri svo gott sem tómt og birgðir af öðrum lækningavörum á borð við sáraumbúðir og sótthreinsiefni nánast á þrotum.

AFP hefur eftir farþegum sem lifðu af, að líklegasta orsök slyssins hafi verið of hraður akstur og ölvun ökumannsins, sem lést í slysinu. Banaslys eru tíð á þjóðvegum Lýðstjórnarlýðveldisins. Á föstudaginn, 8. september. fórust ellefu þegar vöruflutningabíll valt á þjóðvegi í Kasai-héraði, sem er inni í miðju landi. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV