25 dóu í skógareldum í Portúgal

17.06.2017 - 23:45
Erlent · Hamfarir · Evrópa
epa06034348 Flames rise during a forest fire in Pedrogao Grande, Leiria District, Center of Portugal, 17 June 2017. About 180 firemen, 52 land vehicles and 2 planes are fighting to extinguish the fire.  EPA/PAULO CUNHA
 Mynd: EPA  -  LUSA
Minnst 25 dóu í miklum skógareldum í Portúgal á laugardag og fjöldi fólks til viðbótar er slasaður eftir. Flestir hinna látnu dóu í bílum sínum á flótta undan eldunum, að sögn yfirvalda. Antonio Costa, forsætisráðherra Portúgals, upplýsti á fréttamannafundi að búið væri að staðfesta 24 dauðsföll. Einn hefur látist af sárum sínum síðan og óttast er að enn fleiri hafi látist. Öll fórnarlömbin eru almennir borgarar, en sex slökkviliðsmenn hafa slasast.

Um 500 slökkviliðsmenn berjast við eldana, sem blossuðu upp í strjálbýlli sveit í miðju Portúgal um nónbil á laugardag og breiddust hratt út.  Nokkur þorp urðu illa úti í eldunum en ekki hefur verið unnt að meta tjónið enn, þar sem slökkvistarfi er langt í frá lokið.

Hitabylgja gekk yfir Portúgal á laugardag og fór hitinn yfir 40 gráður á mörgum stöðum. Fjöldi skógar- og gróðurelda sveið yfir 1.000 ferkílómetra lands í Portúgal á síðasta ári. 

Fréttin hefur verið uppfærð.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV