17 óvænt dauðsföll á Landspítala í fyrra

17.02.2017 - 13:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sautján óvænt andlát urðu á Landspítalanum í fyrra og er það meira en árið 2015 þegar tíu óvænt dauðsföll urðu á spítalanum. Þetta kemur fram í starfsemisupplýsingum á vef Landspítalans. Þá kemur einnig fram að alls voru 168 komur á neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis sem er meira en árið áður. Þá má einnig lesa úr tölunum að 81% starfsmanna spítalans eru konur og 19% eru karlar.

Alls unnu 4.555 konur á Landspítalanum í árslok og 1.043 karlar. Þá voru 46% í vaktavinnu, 46% í dagvinnu og 8% í tímavinnu. Flestir starfsmenn vinna á lyflækningasviði og næstflestir á flæðisviði, að því er kemur fram í starfsemisupplýsingum Landspítalans.