14 létust í flugeldaslysi í Mexíkó

10.05.2017 - 05:43
epa05953083 Residents visit the site of an explosion at a fireworks warehouse in the municipality of Chilchotla, Puebla, a state in central Mexico, 09 May 2017. At least 14 people were killed and 30 injured in the incident.  EPA/Francisco Guasco
Húsið er rústir einar eftir sprenginguna.  Mynd: EPA  -  EFE
14 létust, þar af 11 börn, þegar flugeldageymsla sprakk í Mexíkó á mánudagskvöld. Sprengingin varð í þorpi í Puebla héraði, San Isidro sem liggur um 270 kílómetrum austur af Mexíkóborg. Flugeldana átti að nota í trúarhátíð sem halda átti 15. maí að sögn yfirvalda.

Breska dagblaðið Guardian hefur eftir yfirvöldum að flugeldarnir hafi verið geymdir á heimili nærri kirkju þorpsins. Einhver hafði kveikt í púðurkerlingu fyrir utan heimilið, og þaðan hafi neisti komist í flugeldana. Heimilið er gjörónýtt. Ellefu þeirra sem létust voru á milli fjögurra og fimmtán ára gamlir. 22 eru særðir eftir sprenginguna, þar á meðal eru þrjú börn alvarlega slösuð. Javier Lozano, talsmaður yfirvalda, segir flesta hafa látið lífið við að verða undir rústum hússins.

Dauðsföll af völdum flugelda eru nokkuð algeng í Mexíkó. 42 létu lífið og 70 særðust skammt frá Mexíkóborg í desember þegar sprenging varð á stærsta flugeldamarkaði landsins.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV