106 ára kaka frá Suðurskautslandi „næstum æt“

12.08.2017 - 03:25
Mynd með færslu
 Mynd: Antarctic Heritage Fund
Frysting er góð geymsluaðferð fyrir flestan mat. Þetta kom glögglega í ljós þegar nýsjálenskir forverðir opnuðu kökudós sem fannst í gömlum skála á Suðurskautslandinu og fundu þar enska ávaxtaköku, sem talin er 106 ára gömul en var „næstum æt“ að sjá og lykta af. Forverðirnir, sem starfa á vegum nýsjálenskrar stofnunar sem sérhæfir sig í sögu og minjum frá Suðurskautslandinu, telja að kakan hafi tilheyrt breska landkönnuðinum Robert F. Scott.

Dósin var nokkuð ryðguð en kakan, sem einnig var vafin í smjörpappír, reyndist í prýðilegu ásigkomulagi.  Af útlitinu og lyktinni að dæma virtist hún raunar (næstum) æt, segir á heimasíðu Antarctic Heritage Trust, sem séð hefur um umfangsmikið forvörsluverkefni á Suðurskautinu síðasta árið eða svo. 

Skálinn sem hún fannst í er einn af nokkrum skúrum og skálum sem norski landkönnuðurinn Carsten Borchgrevink og hans leiðangursmemenn byggðu á Adere-höfða árið 1899, og eru taldar fyrstu byggingarnar sem reistar voru á Suðurskautslandinu. Kafteinn Robert Falcon Scott hafði þar viðdvöl árið 1911 í sögufrægum Terra Nova-leiðangri sínum á Suðurpólinn.

Heimildir eru fyrir því að honum hafi þótt ávaxtakökur breska kex- og kökuframleiðandans Huntley & Palmers hið mesta hnossgæti, en téð fornkaka er einmitt úr þeirra ranni. Í samtali við National Geographic-tímaritið segir Lizzie Meek, yfirforvörður Antarctic Heritage Trust, að ávaxtakökur af þessu tagi hafi verið vinsælar á Englandi þá sem nú. Hún bendir á að dvöl og vinna á Suðurskautslandinu kallar á orkumikla fæðu; fitu- og sykurríka. Ensk ávaxtakaka uppfylli þessi skilyrði með ágætum, auk þess sem hún passi ljómandi vel með rjúkandi tebolla.

Fjórir forverðir AHT hafa unnið að því að koma öllu sem fannst í þessum elstu byggingum Suðurskautslandsins í eins upprunalegt horft og unnt er síðan í maí á síðasta ári. Samtals hafa þeir fundið og forvarið um 1.500 hluti. Þar á meðal eru ýmis tól og tæki, föt, „illa skemmt“ kjöt og fiskur og „frekar vel útlítandi“ sultur, að sögn Meeks. Öllu sem í skálanum er, líka ávaxtakökunni góðu, er komið í eins gott ástand og hægt er.

Næsta skref er að gera upp eða forverja  byggingarnar sjálfar, eftir kúnstarinnar reglum, svo þær fái staðið áfram í því sem næst upprunalegri mynd. Þótt ekki séu þetta stór mannvirki eða glæsileg þykja þau sérlega merkileg fyrir þær sakir, að þetta eru einu byggingarnar sem vitað er með fullri vissu, að séu elstu byggingarnar í heilli heimsálfu. Þegar því verki lýkur verður öllu sem í þeim fannst komið þar aftur fyrir á sínum stað.   

Scott komst á Suðurpólinn ásamt fjórum leiðangursmönnum öðrum árið 1912, 33 dögum á eftir Norðmanninum Roald Amundsen. Fimmmenningarnir fórust allir á leiðinni frá Pólnum. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV