Þurfum fleiri lúxushótel úti á landi

Benedikt K. Magnússon, sviðsstjóri hjá KPMG.


  • Prenta
  • Senda frétt

Það er áhyggjuefni hversu lítið menntuðu starfsfólki í hótelgeiranum hefur fjölgað. Það getur bitnað á þjónustu hótela hér á landi og ánægju gesta sem sækja Ísland heim. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem KPMG hefur gert. Benedikt K. Magnússon, sviðsstjóri hjá KPMG ræddi stöðu hótelgeirans.

Framboð á hótelherbergjum hefur aukist mjög á undanförnum árum en þó ekki haldið í við fjölgun ferðamanna. Engu að síður má gera ráð fyrir að nýtingarhlutfall hótela muni lækka ef spár um fjölgun ferðamanna og tölur um fjáfestingar í nýjum hótelum reynast réttar. 

Hótelrekstur líður fyrir miklar árstíðarsveiflur. Störfin sem skapast, einkum á í hótelum á landsbyggðinni, eru yfirleitt tímabundin sem kemur niður á þjálfun og sérhæfingu starfsfólks. Það getur bitnað á þjónustu við gesti, sem kvarta undan þjónustu og verðlagi í könnunum.  Eins vantar hvata fyrir fólk að sækja sér menntun á sviði hótelgeirans. Árstíðarsveiflur hafa þó farið minnkandi, sem er lykillinn að stöðugum rekstri. 

Benedikt segir koma á óvart að mun meiri hagnaður er af hótelrekstri á landsbyggðinni en í höfuðborginni. Aðeins 40 prósent hótelrekenda á höfuðborgarsvæðinu skiluðu hagnaði en 70 prósent á landsbyggðinni. Hins vegar þurfi að byggja upp betri hótel, einkum á landsbyggðinni, sem geti boðið upp á meiri gæði. Það sé ein forsenda þess að auka framlegð í greininni. Þar þurfa helst reyndir og fjársterkir hótelrekendur að koma til sögunnar, að mati Benedikts, þar sem hótelrekstur sér dýr fjárfesting til lengri tíma. 

Í skýrslunni kemur einnig fram að helmingur hótelrekenda eru neikvæðir í garð náttúrupassa sem stjórnvöld hyggjast koma upp en um fjórðungur jákvæður. 

Ertu með athugasemd vegna fréttarinnar? Sendu á frettir@ruv.is

Tilkynna um bilaða upptöku